Enski boltinn

Pogba þarf að fara í aðgerð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Paul Pogba í leik með Manchester United í vetur.
Paul Pogba í leik með Manchester United í vetur. Getty/ James Baylis

Endurkoma Paul Pogba í lið Manchester United var stutt að þessu sinni en hann kom til baka rétt fyrir jól eftir langa fjarveru. Nú þarf franski miðjumaðurinn að leggjast á skurðarborðið og verður frá keppni næsta mánuðinn.

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, staðfesti það eftir leikinn á móti Arsenal í gær að Poga yrði ekki með liðinu næstu þrjár til fjórar vikur.

Paul Pogba er búinn að glíma við ökklameiðsli síðan í september en hann lék ekki með United liðinu frá 30. september til 22. desember.



Solskjær vildi þó ekki gera of mikið úr aðgerðinni. „Við höfum skoðað þetta vel og þetta er ekkert stórt. Hann þarf samt að láta laga þetta strax,“ sagði Ole Gunnar Solskjær um aðgerðina.

Margir bjuggust við því að Manchester United myndi selja Paul Pogba í janúar en Real Madrid er með hann efst á sínum innkaupalista. Solskjær hefur aftur á mótið haldið því stöðugt fram að Manchester United ætli ekki að selja leikmanninn.

Þessi meiðsli Paul Pogba flækja hugsanlega sölu hvort sem er og því má búast við því núna að franski miðjumaðurinn klári þetta tímabil hið minnsta sem leikmaður Manchester United.

Paul Pogba hefur spilað samtals átta leiki með Manchester United í öllum keppnum á þessari leiktíð þarf af sjö þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Pogba hefur ekki skorað mark sjálfur en gaf tvær stoðsendingar í fyrsta leiknum á móti Chelsea 11. ágúst síðastliðinn. Frá þeim leik hefur hann ekki komið með beinum hætti að marki hjá United liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×