Sport

Varði 85 skot í einum og sama leiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joonas Korpisalo átti magnaðan leik í marki Columbus Blue Jackets en varð samt að sætta sig við tap.
Joonas Korpisalo átti magnaðan leik í marki Columbus Blue Jackets en varð samt að sætta sig við tap. Getty/Andre Ringuette

NHL-deildin lætur ekki kórónuveirufaraldurinn stoppa sig í því að spila um titilinn árið 2020 en úrslitakeppnin er hafin og fer fram í tveimur hlutum á tveimur stöðum í Kanada. Vesturdeildin sem og undanúrslitin og Stanley Cup úrslitaleikurinn fara fram í Edmonton en Austurdeildin verður spiluð í Toronto.

Fyrsta var spilað um að komast inn í úrslitakeppnina en nú er fyrsta umferð úrslitakeppninnar farin af stað. Þar mætast meðal annars lið Tampa Bay Lightning og Columbus Blue Jackets. Það einvígi byrjaði á sögulegum leik sem ætlaði aldrei að enda.

Tampa Bay Lightning vann á endanum 3-2 sigur á Columbus Blue Jackets eftir fimmframlengdan leik sem tók sex klukkutíma. Eldingin er því komin í 1-0 í einvígi liðanna í fyrstu umferð en vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í átta liða úrslitin.

Mörkin urðu kannski bara fimm á þessum sex tímum en skot á mark voru 151 talsins. Brayden Point skoraði sigurmarkið í leiknum en þá voru liðin búin að spila í 150 mínútur og 27 sekúndur.

Enginn hafði þó meira að gera en Joonas Korpisalo, markvörður Columbus Blue Jackets, sem þurfti að verja alls 85 skot í þessum leik. Hann bætti gamla metið um heil tólf skot en það átti Kelly Hrudey síðan 1987. Joonas Korpisalo er 26 ára Finni og var því ekki fæddur þegar Kelly Hrudey varði 73 skot í marki New York Islanders fyrir 33 árum síðan.

Þetta var fjórði lengsti leikurinn í sögu úrslitakeppni NHL-deildarinnar. Leikurinn var svo langur að menn þurftu að fresta leik Boston Bruins og Carolina Hurricanes sem átti að fara fram á eftir honum. Sá leikur fer ekki fram fyrr en í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×