Fótbolti

City í átta liða úrslit | Annað árið í röð sem Madrídingar detta út í fyrstu umferð

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gabriel Jesus var aðalmaðurinn þegar City tryggði sér farseðil til Portúgal.
Gabriel Jesus var aðalmaðurinn þegar City tryggði sér farseðil til Portúgal. getty/Simon Stacpoole

Manchester City vann Real Madrid 4-2 samanlagt í einvígi liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu.

City vann fyrri leikinn 2-1 á Santiago Bernabéu fyrir 163 dögum síðan. Real þurfti því að skora að minnsta kosti tvö mörk til að eiga möguleika í kvöld.

Raheem Sterling kom heimamönnum í City yfir á 9. mínútu eftir skelfileg mistök Raphael Varane í vörn Madrídinga. Gabriel Jesus vann af honum boltann og senti á Sterling sem skoraði auðveldlega.

Karim Benzem jafnaði metin með góðum skalla á 28. mínútu, staðan jöfn í hálfleik og allt gat gerst í seinni hálfleik.

Raphael Varane gerðist aftur sekur um hörmuleg mistök á 68. mínútu þegar hann ætlaði að skalla boltann til baka á Courtois í markinu en Gabriel Jesus komst þá inn í sendinguna og skoraði framhjá Courtois af stuttu færi.

Lokatölur í leiknum 2-1 fyrir Manchester City sem þýðir að City mætir Lyon í 8-liða úrslitum í Portúgal en Real er úr leik eftir 16-liða úrslit annað árið í röð.




Fleiri fréttir

Sjá meira
×