Íslenski boltinn

Valsmenn vildu spila í kvöld en Skagamenn ekki

Sindri Sverrisson skrifar
Valur og ÍA áttu að mætast á morgun en þurfa að mætast síðar.
Valur og ÍA áttu að mætast á morgun en þurfa að mætast síðar. VÍSIR/DANÍEL

Leikið verður í Mjólkurbikar karla í fótbolta í kvöld þrátt fyrir ákvörðun um að hertar aðgerðir til að hefta útbreiðslu kórónuveirufaraldursins taki gildi í hádeginu á morgun. Einn leikur mun standa út af borðinu.

Leikur Vals og ÍA átti að fara fram annað kvöld en honum hefur verið frestað um óákveðinn tíma. Á leikjunum í kvöld, sem eru sjö talsins, verða engir áhorfendur leyfðir.

Valsmenn höfðu áhuga á að leiknum við ÍA yrði flýtt um sólarhring svo hann færi fram í kvöld. Skagamenn voru hins vegar ekki búnir undir það að mæta á Hlíðarenda í kvöld né kom til greina að spila leikinn fyrir hádegi á morgun.

„Jú, það er hárrétt. Við sögðum við KSÍ að við værum tilbúnir að spila leikinn í kvöld en þar sem hann var settur á á morgun þá skilst mér að bæði félög hefðu þurft að samþykkja þetta,“ sagði Sigurður K. Pálsson, framkvæmdastjóri Vals.

„Við lögðum líka til að leikurinn færi fram annað kvöld án áhorfenda, en það var ekki gefin heimild fyrir því heldur,“ sagði Sigurður.

Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri ÍA og þjálfarinn Jóhannes Karl Guðjónsson sögðu fyrirvarann einfaldlega hafa verið of lítinn.

„Það kom ekki til greina af okkar hálfu að spila í kvöld, eftir að þessi tilmæli frá heilbrigðisráðherra í dag. Mér finnst ekki rétt í stöðunni að flýta leiknum til að komast framhjá þeim reglum, heldur að við hlítum þeim. Okkar undirbúningur snerist líka að því að leikurinn yrði spilaður á morgun,“ sagði Jóhannes Karl.


Tengdar fréttir

Telur knattspyrnulið áfram geta æft

Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, telur að æfingar knattspyrnuliða geti farið fram með sama hætti og undanfarnar vikur þrátt fyrir hertar aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×