Innlent

Vestfjarðavegur um Vatnsfjörð verði með lægri umferðarhraða

Kristján Már Unnarsson skrifar
Við Flókalund hefur Vegagerðin kynnt tillögur um að færa Vestfjarðaveg suður fyrir ána Pennu og láta hann liggja þvert yfir Vatnsfjörð til að mæta kröfum um umferðaröryggi miðað við 90 km hraða á klst. Skipulagsstofnun vill halda núverandi veglínu en hanna veginn miðað við lækkaðan hámarkshraða,
Við Flókalund hefur Vegagerðin kynnt tillögur um að færa Vestfjarðaveg suður fyrir ána Pennu og láta hann liggja þvert yfir Vatnsfjörð til að mæta kröfum um umferðaröryggi miðað við 90 km hraða á klst. Skipulagsstofnun vill halda núverandi veglínu en hanna veginn miðað við lækkaðan hámarkshraða, Grafík/Vegagerðin.

Skipulagsstofnun mælist til að Vestfjarðavegur um friðlandið í Vatnsfirði verði hannaður miðað við lækkaðan umferðarhraða og telur að gerð þjóðvegar fyrir 90 kílómetra hraða á klukkustund muni rýra verndargildi svæðisins. Fjallað var um málið í fréttum Stöðvar 2.

Menn spyrja sig núna hvort ný Teigsskógardeila gæti verið í uppsiglingu þegar kemur að lagningu nýs vegar um Vatnsfjörð framhjá Flókalundi og upp með ánni Pennu vegna vegagerðar um Dynjandisheiði.

Frá Vestfjarðavegi við Flókalund. Þaðan liggur leiðin upp á Dynjandisheiði um Penningsdal.Stöð 2/Baldur Hrafnkell Jónsson.

Miðað við álit Skipulagsstofnunar á umhverfismati telja menn, sem málinu eru kunnugir og fréttastofan hefur rætt við, að þokkaleg sátt gæti þó náðst um stærsta hluta verksins, sem er vegstæðið yfir sjálfa heiðina.

Hins vegar stefnir í deilur um hvernig vegurinn verði lagður um Dynjandisvog. Þar voru tvær veglínur metnar og eru Ísafjarðarbær og Umhverfisstofnun á öndverðum meiði um hvora þeirra eigi að velja en Skipulagsstofnun gerir ekki upp á milli þeirra.

Ísafjarðarbær vill að veglínan um Dynjandisvog liggi upp í hlíðina, eins og hér er sýnt. Umhverfisstofnun vill að vegurinn liggi neðan klettabeltisins, ofan við fjöruna, og fari þannig nær fossinum Dynjanda.Grafík/Vegagerðin.

Mestu átökin gætu orðið um hvaða leið eigi að velja um friðlandið í Vatnsfirði. Þar telur Vegagerðin illmögulegt að mæta kröfum um umferðaröryggi með því að halda núverandi vegstæði, einkum vegna þrengsla í kringum Hótel Flókalund. 

Hefur Vegagerðin kynnt þá valkosti að færa veginn suður fyrir ána Pennu og einnig að þvera Vatnsfjörð.

Vegagerðin telur þrengsli við Flókalund gera það að verkum að illmögulegt sé að leggja þar öruggan veg ásamt gatnamótum miðað við nútímakröfur. Skipulagsstofnun vill leysa málið með því að hanna veg með lægri umferðarhraða .Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Skipulagsstofnun mælir eindregið gegn þverun Vatnsfjarðar og tekur þar afstöðu með Umhverfisstofnun. Hún bendir á að verði slík áform að veruleika sé ljóst að meirihluta fjarða frá Gilsfirði að Vatnsfirði hafi verið raskað með þverunum eða vegagerð á fyllingum fyrir botni fjarða.

Stofnunin vill þess í stað að núverandi vegstæði verði fylgt, bæði fyrir Vatnsfjörð og einnig framhjá Flókalundi, og að kröfum um umferðaröryggi verði mætt með því að hanna veginn fyrir lækkaðan hámarkshraða. Er vísað til fordæmis frá Þingvallavegi um Gjábakka.

Frá vegagerð um Litlanes í Kjálkafirði árið 2014. Þar vildi Skipulagsstofnun leggja veg með lægri umferðarhraða sem hefði gefið færi á krappari beygjum og minna raski á umhverfinu. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Skipulagsstofnun leggur til að kafli Vestfjarðavegar verði hannaður miðað við lægri hraða. Það gerðist einnig fyrir níu árum í vegagerð um Kjálkafjörð en þá vildi stofnunin lægri hraða á kafla um Litlanes til að draga úr raski sem fylgdi auknum öryggiskröfum sem meiri hraði kallar á.

Sjónarmið Skipulagsstofnunar urðu þá undir og var vegurinn um Litlanes lagður miðað við 90 kílómetra leyfilegan hraða á klukkustund.

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:


Tengdar fréttir

Svona gæti nýr vegur um Dynjandisheiði litið út

Vegagerðin hefur lagt fram frummatsskýrslu um mat á umhverfisáhrifum Vestfjarðavegar um Dynjandisheiði. Vegagerð við fossinn Dynjanda og um friðlandið í Vatnsfirði eru taldir viðkvæmustu þættir verksins.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.