Íslenski boltinn

Fjölnir og FH naumlega í 16-liða úrslit Mjólkurbikarsins | Framlenging hjá ÍA

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Morten Beck sá til þess að FH vann nauman sigur á Þrótti.
Morten Beck sá til þess að FH vann nauman sigur á Þrótti. Vísir/Daniel

Nær öllum leikjum dagsins í Mjólkurbikarnum er nú lokið. FH og Fjölnir fóru naumlega áfram og þá þurfti að framlengja í leik Kórdrengja og ÍA.

FH, sem hefur unnið báða leiki sína í Pepsi Max deildinni í sumar, heimsótti Þrótt í Laugardalnum en heimamenn leika í Lengjudeildinni. Leikurinn var töluvert jafnari en menn hefðu þorað að vona. Morten Beck Andersen kom FH yfir á 5. mínútu en Djordje Panic jafnaði metin fyrir Þrótt þegar rúmur hálftími var liðinn og þannig var staðan í hálfleik.

Morten Beck skoraði sitt annað mark í leiknum þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik.  Reyndist það sigurmark leiksins og lokatölur því 2-1 FH í vil.

Í Grafarvogi voru Selfyssingar í heimsókn en á meðan Fjölnir leikur í Pepsi Max eru gestirnir í 2. deild. Það var þó ekki að sjá í upphafi leiks en Guðmundur Tyrfingsson kom gestunum yfir eftir aðeins tíu mínútur. Ingiberkur Kort Sigurðsson jafnaði metin fyrir Fjölni tæpum fimmtán mínútum síðar en gestirnir létu það ekki á sig fá og komust aftur yfir með marki Valdimars Jóhannssonar þegar tæpur hálftími var liðinn.

Adam var þó ekki lengi í paradís en Viktor Andri Hafþórsson jafnaði metin fyrir Fjölni aðeins tveimur mínútum eftir að Selfoss komst yfir. Staðan 2-2 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var ekki jafn skemmtilegur og sá fyrri enda var aðeins eitt mark sem leit dagsins ljós. Það gerði Jón Gísli Ström og tryggði Fjölni þar með 3-2 sigur og sæti í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins. 

Þór Akureyri vann 2-1 heimasigur á Reyni Sandgerði eftir framlengdan leik. Heimamenn leika í Lengjudeildinni á meðan Reynir er í 3. deild.

Elton Renato Livramento Barros kom Reyni óvænt yfir strax á 18. mínútu og þannig var staðan allt fram á 78. mínútu leiksins þegar Sölvi Sverrisson jafnaði metin. Ekki urðu mörkin fleiri í venjulegum leiktíma og því þurfti að framlengja.

Þórsarar fengu víti undir lok framlengingar og skaut Sigurður Marinó Kristjánsson þeim inn í 16-liða úrslitin er hann skoraði úr vítinu. Lokatölur á Akureyri 2-1 og Sandgerðingar fara í súra ferð heim á leið.

Þá þurfti að framlengja leik Kórdrengja og ÍA en staðan var 2-2 að loknum venjulegum leiktíma.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.