Sport

Katrín Tanja er hætt

Sindri Sverrisson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir tilkynnti í kvöld að hún myndi ekki keppa á heimsleikunum í CrossFit í ár.
Katrín Tanja Davíðsdóttir tilkynnti í kvöld að hún myndi ekki keppa á heimsleikunum í CrossFit í ár. Mynd/Instagram/fittestincapetown

Katrín Tanja Davíðsdóttir tilkynnti það í kvöld að hún myndi ekki keppa á heimsleikunum í CrossFit í ár og að ef að ekkert breyttist yrði hún ekki lengur fulltrúi íþróttarinnar.

Þessu greindi Katrín Tanja frá á Instagram. Ákvörðunina tekur hún í kjölfar þeirrar reiðiöldu sem verið hefur í CrossFit-samfélaginu vegna framgöngu Greg Glassman, eiganda CrossFit-samtakanna. Glassman, sem varð uppvís að rasískum ummælum á Twitter, virðist hafa hagað sér sem einræðisherra í CrossFit-samtökunum í gegnum tíðina og það að hann sé hættur sem framkvæmdastjóri dugar skammt að mati Katrínar Tönju.

Hún vísar í hlaðvarpsþátt Andy Stumpf, fyrrverandi starfsmanns CrossFit-samtakanna, þar sem hann ræðir um þá slæmu menningu sem Glassman hafi skapað hjá samtökunum. „Mér býður svo við þessu að mig skortir orð,“ skrifar Katrín Tanja.

„Ég vil að allir viti að þetta er ekki það sem VIÐ sem samfélag stöndum fyrir. Þessi framganga eins manns (og þeirra sem setið hafa hjá aðgerðalausir) hefur sett blett á íþróttina OKKAR og OKKAR samfélag. Þetta er ekki það sem við stöndum fyrir,“ skrifar Katrín Tanja, og bætir við:

„Svona er ég ekki. Mín siðferðisvitund og mín gildi gera þetta að auðveldri ákvörðun: ÉG ER HÆTT. Ég sé ekki aðra leið en að byrja með hreint blað. Greg og þeir sem sátu hjá geta ekki verið áfram hluti af CrossFit.“

Katrín Tanja hefur tvívegis orðið heimsmeistari í CrossFit, árin 2015 og 2016. Hún varð í 4. sæti á síðasta ári.


Tengdar fréttir

Glassmann hættur sem stjóri CrossFit en ræður samt öllu ennþá

Greg Glassman tilkynnti í nótt að hann væri hættur sem framkvæmdastjóri CrossFit en allt hefur verið á öðrum endanum í CrossFit heiminum eftir hegðun hans í kringum hryllileg örlög George Floyd og réttindabaráttu svartra í framhaldinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×