Innlent

Sam­særis­kenningar og framand­legar full­yrðingar for­seta­fram­bjóðanda

Kjartan Kjartansson skrifar
Guðmundur Franklín Jónsson hefur verið fastagestur á Útvarpi Sögu til að ræða alþjóðleg málefni.
Guðmundur Franklín Jónsson hefur verið fastagestur á Útvarpi Sögu til að ræða alþjóðleg málefni.

Framandlegar kenningar um að afganskir karlmenn gætu reynt að komast inn í Kvennaathvarfið og að milljarðamæringurinn George Soros sé með áætlun um að loka öllum vefsíðum hægrimanna er á meðal þess sem forsetaframbjóðandinn Guðmundur Franklín Jónsson hefur haldið fram sem álitsgjafi á Útvarpi Sögu undanfarin ár. Þar hélt hann því einnig fram að Soros hefði boðið sér að vera með í slíkri áætlun.

Fyrrverandi verðbréfamiðlarinn og hótelstjórinn Guðmundur Franklín segist ætla að efla forsetaembættið, nýta málskotsrétt forseta og berjast gegn spillingu sem forseti. Hann hefur í þeim fullyrðingum sínum gengið út frá að forseti hafi mun umfangsmeiri valdheimildir en áratugalöng túlkun á stjórnarskránni og venja gerir ráð fyrir.

Áður en Guðmundur Franklín bauð sig fram til forseta í vor var hann fyrirferðarmikill álitsgjafi á Útvarpi Sögu þar sem hann gegndi gjarnan hlutverki sérfræðings í alþjóðamálum. Álit frambjóðandans þar voru á köflum digurbarkaleg og einkenndust af framandlegum fullyrðingum og samsæriskenningum.

Vísir hafði samband við Guðmund Franklín um að skýra sum af ummælunum sem fara hér á eftir og spyrja hvort hann stæði enn við þau. Hann gaf ekki kost á viðtali og vísaði á stjórnanda Útvarps Sögu.

„Talaðu bara við Arnþrúði. Vertu blessaður,“ sagði Guðmundur Franklín, og vísar þar í Arnþrúði Karlsdóttur útvarpsstjóra á Útvarpi Sögu. Arnþrúður segir í samtali við Vísi að Guðmundur hafi verið með þætti á stöðinni þar sem hann fjallaði um alþjóðamál, en að hún vilji annars ekki tjá sig um málið. 

Guðmundur Franklín Jónsson sækist eftir að verða næsti forseti lýðveldisins.Vísir

Varaði við skeggjuðum Afgönum í Kvennaathvarfið

Sem álitsgjafi á Útvarpi Sögu hefur Guðmundur Franklín lýst afdráttarlausum skoðunum á mönnum og málefnum og í sumum tilfellum framandlegum kenningum sem eiga við lítil eða engin rök að styðjast.

Dæmi um það síðarnefnda var gagnrýni Guðmundar Franklín á lög um kynrænt sjálfræði sem voru samþykkt fyrir ári. Með þeim var réttur einstaklinga til þess að skilgreina kyn sitt sjálfir festur í lög. Í viðtali við Arnþrúði Karlsdóttur á Útvarpi Sögu 9. júlí í fyrra lýsti Guðmundur Franklín lögunum sem þeim „alheimskustu“ sem sett hefðu verið á Íslandi á síðari árum. Með þeim gæti fólk „valið sitt eigið kyn“.

Hélt núverandi forsetaframbjóðandinn því fram án frekari rökstuðnings að flóttamenn sem kæmu til landsins kæmu til með að notfæra sér lögin um kynrænt sjálfræði.

„Nú geta flóttamenn komið til landsins, skeggjaðir karlar frá Afganistan og sagst heita bara Jóna og vilja að það sé dílað við þá sem kvenmenn og þeir séu sko minnihlutahópur og þeir hljóti að komast í kvennaathvarfið því þeir eru konur,“ sagði Guðmundur Franklín sem hafnaði því í sama viðtali að jörðin væri að hlýna af völdum manna, þvert á vísindalega þekkingu á orsökum hnattrænnar hlýnunar.

Hér fyrir neðan má hlusta á upptökuna sem finna má á vef Útvarps Sögu.


Aftökur utan dóms og laga komi Íslendingum ekki við

Utanríkisráðuneytið og ríkisstjórnin fengu einnig að heyra það frá Guðmundi Franklín í viðtalinu á Útvarpi Sögu eftir að fulltrúi Íslands í mannréttindaráði Sameinuðu þjóðanna fór fyrir hópi ríkja sem óskaði eftir því að möguleg mannréttindabrot í fíkniefnastríði Rodrigo Duterte, forseta Filippseyja, yrðu rannsökuð í fyrra. Filippseysk stjórnvöld brugðust hart við tillögunni.

Fullyrti Guðmundur Franklín að Íslendingar gerðu sig að fífli með því að leggja tillöguna fram og varaði við því að Íslendingar ferðuðust til Filippseyja þar sem þeirra gætu beðið einhvers konar hefndaraðgerðir. Afskipti Íslands af málefnum Filippseyjar gætu verið „stórhættuleg“.

Véfengdi núverandi frambjóðandinn ítrekað hvað Íslendingum „kæmi við“ að fólk á Filippseyjum kynni að vera tekið af lífi án dóms og laga á Filippseyjum. Benti hann á að „misjafnar aðferðir“ væru í misjöfnum löndum.

Talið er að tugir þúsunda manna kunni að hafa látið lífið í fíkniefnastríði Duterte samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar sem íslensk stjórnvöld áttu þátt í að krefjast en þær voru birtar í síðustu viku.

Sjá einnig: „Íslenska úttektin“ sýnir að tugir þúsunda gætu hafa látist í fíkniefnastríðinu

Í öðru viðtali við Arnþrúði í ágúst árið 2018 lét Guðmundur Franklín utanríkisráðuneytið einnig heyra það vegna þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi eftir að það innlimaði Krímskaga árið 2014. Lýsti Guðmundur Franklín þeirri ákvörðun sem „mestu mistökum“ sem Ísland hefði gert.

„Úkraína er eitthvað spilltasta þjóðríki jarðarinnar eins og Afganistan og Pakistan,“ sagði Guðmundur sem „nennti“ þó ekki að rökstyðja þá fullyrðingu frekar. Ítrekaði hann að ríkin þrjú hefðu verið „spillt í þúsund ár“.

Landlæg spilling hefur verið viðvarandi í Úkraínu um árabil. Bandaríkin og Evrópusambandið þrýstu meðal annars á úkraínsk stjórnvöld um umbætur á embætti ríkissaksóknara til þess að uppræta spillinguna eftir stjórnarskipti þar árið 2014. Viðskiptaþvinganir sem lagðar voru á Rússland tengdust aftur á móti því að það innlimaði Krímskaga sem tilheyrir Úkraínu. Rússar voru jafnframt reknir úr klúbbi stærstu iðnríkja heims sem þá nefndist G8 vegna innlimunarinnar.

Guðmundur Franklín og Guðni Th. Jóhannesson forseti mættust í kappræðum á Stöð 2 11. júní.Vísir/Sigurjón

Sagði Soros eyðileggja vestræn þjóðfélög

Guðmundur Franklín gekk lengra og hélt því fram að bandarísk-ungverski milljarðamæringurinn George Soros hefði verið á bak við „byltinguna“ í Úkraínu. Þar átti Guðmundur Franklín líklega við mikil mótmæli sem geisuðu gegn ríkisstjórn Viktors Janúkóvitsj forseta sem var hallur undir stjórnvöld í Kreml. Janúkóvitsj hrökklaðist á endanum frá völdum árið 2014.

„Fólk hefur bara ekkert viðurkennt það, vestræn þjóðfélög, en það er sannleikur,“ fullyrti Guðmundur Franklín um meinta aðkomu Soros í viðtalinu í ágúst 2018.

Soros hefur lagt tölvuverða fjármuni í mannúðar- og lýðræðismál víða um heim, þar á meðal til að aðstoða flóttafólk. Það hefur gert hann að skotmarki ýmissa hægriöfgahópa sem sjá í honum einhvers konar grýlu sem standi að baki vinstrisinnuðum aðgerðasinnum og mótmælendum um víða storð. Gagnrýni á Soros úr þeim áttum hefur á tíðum litast af andúð á gyðingum.

Sakaði Guðmundur Franklín Soros rakalaust um að „eyðileggja vestræn þjóðfélög“ og um að kaupa báta undir „þúsundir flóttamanna til að flytja til Evrópu til að eyðileggja efnahagslíf“. Of flókið væri hins vegar að tala um aðild Soros að þessu að mati Guðmundar Franklín því almenningur „skildi það ekki“.

Soros hefur sjálfur lýst því að hann hafi styrkt félagasamtök til að efla atvinnumöguleika flóttafólks, ekki síst í Evrópu. Á þeim tíma var mesti flóttamannavandi frá lokum síðari heimsstyrjaldar og mörg evrópsk ríki glímdu við hvernig þau gætu tekið við straumnum.

„Hann heldur að ég sé virkilegur vinur sinn“

Enn óljósari voru fullyrðingar Guðmundar Franklín um að Soros hefði boðið honum að taka þátt í áætlun um að láta loka öllum vefsíðum með hægrisinnuðum skoðunum til þess að tryggja sigur í forsetakosningum í Bandaríkjunum. Þau orð féllu í samræðum þeirra Arnþrúðar um að persónuverndarlöggjöf Evrópusambandsins væri ætlað að „slökkva á“ fólki eins og þeim.

„Ég er með planið hans fyrir framan mig, helvítis fíflið. Hann bauð mér að taka þátt í því. Hann heldur að ég sé virkilegur vinur sinn,“ sagði Guðmundur Franklín án þess að skýra frekar hvað hann átti við um meint boð Soros.

Hér fyrir neðan má hlusta á upptökuna sem finna má á vef Útvarps Sögu.


Svo virðist sem að tilefni umræðunnar um að hægrisinnuðum vefsíðum væri lokað hafi verið þegar Facebook og fleiri samfélagsmiðlar bönnuðu samsæriskenningavefsíðuna Infowars. Forsvarsmaður hennar hefur meðal annars haldið því fram að fjöldamorð á tuttugu grunnskólabörnum í Sandy Hook í Bandaríkjunum árið 2012 hafi verið sett á svið.

Í sömu umræðu fullyrti Guðmundur Franklín að „flest allir“ blaða- og sjónvarpsmenn væru „kommúnistar“. 

Spyrti hann einnig Smára McCarthy, þingmanni Pírata, saman við Soros og svonefnt djúpnet þar sem Guðmundur Franklín fullyrti að mansal grasseraði. Kallaði hann Smára meðal annars „dýr“ sem væri ekki „heill Íslendingur“ eins og Fréttablaðið greindi frá á sínum tíma.

Lýsti konum sem segjast hafa verið með Trump sem „vændiskonum“ og „dræsum“

Konum sem halda því fram að þær hafi átt í kynferðislegu sambandi við Donald Trump Bandaríkjaforseta fyrir rúmum áratug lýsti Guðmundur Franklín sem „vændiskonum“ og „dræsum“ í sama viðtali við Útvarp Sögu fyrir tæpum tveimur árum.

Þar virðist hann hafa átt við Stephanie Clifford, sem er betur þekkt undir sviðsnafninu Stormy Daniels, og Karen McDougal. Clifford var klámmyndaleikkona en McDougal Playboy-fyrirsæta. Persónulegur lögmaður Trump forseta var sakfelldur fyrir brot sem tengdust greiðslum til kvennanna til að tryggja þögn þeirra fyrir forsetakosningarnar árið 2016.

Fullyrti Guðmundur Franklín að Trump hefði ekki átt kynferðislegt samneyti við konurnar og að hann hefði aðeins greitt þeim til að losna við þær.

„Þegar svona lítil kona eða kelling kemur og segir svona, þú ert stóri karlinn, þú ert hvíti karlinn, þú getur ekkert gert, þú getur ekkert varið þig,“ sagði Guðmundur Franklín og lýsti hvítum, menntuðum, ríkum karlmönnum sem „hötuðum“ um allan heim.

Hélt hann því ennfremur fram að konurnar væru „dræsur“ sem demókratar hefðu dregið fram.

„Hverjum dettur í hug að klassagaur eins og Donald Trump sé að fara að taka svona dömur?“ spurði núverandi forsetaframbjóðandinn.

Clifford (uppi til vinstri) og McDougal (niðri til hægri) segjast hafa átt í kynferðislegu sambandi við Donald Trump fyrir rúmum áratug. Michael Cohen, þáverandi lögmaður Trump, (niðri til vinstri) var dæmdur fyrir brot á kosningalögum vegna greiðslu til að tryggja þögn kvennanna fyrir forsetakosningarnar árið 2016.Vísir

Tengdar fréttir



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×