Viðskiptajöfurinn George Soros ætlar að verja hálfum milljarði dala, um 57,5 milljörðum króna, til aðstoðar farands- og flóttafólks. Hann gagnrýnir að ekki hafi tekist að skapa heilstæða stefnu til að koma til móts við flóttamannavandann.
„Ég hef ákveðið að verja hálfum milljarði í fjárfestingar sem koma að þörfum farands- og flóttafólki og þeim samfélögum sem taka á móti þeim,“ skrifar Soros á vef Wall Street Journal (aðgangur nauðsynlegur).
Farið er yfir grein Soros á vef Time, en þar kemur fram að hann segir nauðsynlegt að ríkisstjórnir heimsins leiði leitina að lausnum, en nauðsynlegt sé að virkja einkageirann.
„Ég mun fjárfesta í sprotafyrirtækjum, samfélagsverkefnum og eldri fyrirtækjum sem stofnuð hafa verið af farands- og flóttafólki. Mitt helsta markmið er að hjálpa fólkinu sem kemur til Evrópu en ég mun leita að góðum fjárfestingatækifærum sem munu gagnast fólki um allan heim.“
Fjárfestingarnar sem um ræðir verða í eigu góðgerðasamtaka hans sem heita Open Society Foundations. Soros ætlar að vera í samstarfi við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og segist vonast til þess að ákvörðun hans muni hvetja aðra fjárfesta til að taka svipaðar aðgerðir.
George Soros fjárfestir í flóttafólki
