Fótbolti

Hafa útbúið sótthreinsunargöng á leikvanginum sínum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Viðar Örn Kjartansson lék með liði Maccabi Tel Aviv á sínum tíma. Hann þekkir því vel til aðstæðna á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv.
Viðar Örn Kjartansson lék með liði Maccabi Tel Aviv á sínum tíma. Hann þekkir því vel til aðstæðna á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv. EPA-EFE/ATEF SAFADI

Öll knattspyrnufélög heims þurfa að gera ráðstafanir þessa dagana vegna útbreiðslu kórónuveirunnar og smitvarnir eru settar í algjöran forgang.

Á Bloomfield leikvanginum í Tel Aviv í Ísrael er greinilega engin áhætta tekin en á vellinum spila flest liðin í stærstu borg landsins. Lið eins og Maccabi Tel Aviv, Hapoel Tel Aviv og Bnei Yehuda Tel Aviv.

Nú hafa starfsmenn vallarins komið upp sérstökum sótthreinsunargöngum sem leikmenn ganga í gegnum á leið sinni út á völl.

Göngin eru sjálfvirk að því leiti að þau nema það þegar einhverjir koma inn í þau en við það fer kerfið af stað.

Leikmenn eru síðan úðaðir með sótthreinsivökva í fimmtán sekúndur og geta eftir það farið inn á völlinn.

Þrír leikir hafa farið fram á vellinum síðan að sótthreinsigöngin voru tekin í notkun um síðustu helgi. Ísraelska deildin fór aftur af stað í síðasta mánuði en engir áhorfendur eru leyfðir á leikjunum.

Leikmenn, starfsmenn og fjölmiðlamenn eru samt ekki skyldaðir til að ganga í gegnum þessi glergöng en engu að síður hafa 100 til 200 manns gert það fyrir hvern leik.

„Flestir eru tilbúnir að fara í gegnum göngin. Þau eru mun öruggari á eftir,“ sagði Eran Druker varaforseti RD Pack fyrirtækisins sem setti upp göngin.

„Við erum ekki lækningin við kórónuveirunni en við erum að berjast gegn útbreiðslu hennar,“ sagði Druker.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.