Sport

Tekur UFC fram yfir Bellator: Líklegra að maður mæti gæja sem notar ekki stera

Sindri Sverrisson skrifar
Gunnar Nelson var gestur í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport í dag.
Gunnar Nelson var gestur í Sportinu í dag á Stöð 2 Sport í dag. MYND/STÖÐ 2 SPORT

Gunnar Nelson á einn bardaga eftir af núgildandi samningi sínum við UFC bardagasambandið en vonast til að fá nýjan samning og hefur ekki í hyggju að snúa sér til Bellator bardagasambandsins. Betur sé staðið að málum hjá UFC, til að mynda varðandi lyfjaeftirlit.

Gunnar segist ekki hafa rætt við UFC um nýjan samning og að í því ástandi sem hafi skapast vegna kórónuveirufaraldursins viti hann ekki hvað taki við.

„Við erum í raun ekki búin að ræða framhaldið neitt. Við höfum í raun haft voðalega lítið samband við þá, og þeir við okkur, á þessum tímum. Ég veit því ekki alveg hvað koma skal. Auðvitað er ég bara að vonast til að við semjum aftur, og að við getum tekið nokkra slagi í viðbót,“ sagði Gunnar í Sportinu í dag. Henry Birgir Gunnarsson spurði hann út í Bellator, og sögur þess efnis að sambandið væri tilbúið að borga betur en UFC, en það var á Gunnari að heyra að mikið þyrfti til þess að hann færi frekar til Bellator.

„Mér finnst UFC vera stigi fyrir ofan [Bellator] þó að það séu margir sem að gætu vel krossað á milli. Það sem er þó fyrst og fremst er að það er betra og meira „professional“ utanumhald hvað varðar lyfjapróf og slíkt í UFC. Mikið öflugra. Ég er hlynntur því og ég er ekki að fara að taka stera, en ég geri ráð fyrir því að það séu helvíti margir í Bellator að taka stera, og svo sem örugglega í UFC líka. Ég treysti því frekar að í UFC fari ég á móti einhverjum gæja sem er „clean“ [ekki búinn að nota stera],“ sagði Gunnar, og benti á að hann væri tekinn í lyfjapróf um það bil sjö sinnum á ári vegna samnings síns við UFC.

Klippa: Sportið í dag - Gunnar segir lyfjaeftirlitið best hjá UFC og vill vera þar

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.