Erlent

Bretar sagðir hafa náð hátindi faraldursins

Samúel Karl Ólason skrifar
Breskir heilbrigðisstarfsmenn fá þjálfun í notkun hlífðarbúnaðar.
Breskir heilbrigðisstarfsmenn fá þjálfun í notkun hlífðarbúnaðar. AP/Jon Super

Tala látinna í Bretlandi hækkaði um 847 í dag og stendur nú í 14.576. 108.692 hafa nú greinst með veiruna í Bretlandi. Sérfræðingur segir Bretland eitt þeirra ríkja sem komu hvað verst út úr fyrstu bylgju smita af Covid-19 en að hátindinum hafi líklegast verið náð.

Yfirvöld Bretlands ætla sér að auka skimun fyrir nýju kórónuveirunni töluvert á næstunni meðal opinberra starfsmanna eins og lögregluþjóna, slökkviliðsmanna og starfsmanna fangelsa Bretlands.

Undanfarið hafa próf að mestu verið framkvæmd á breskum heilbrigðisstarfsmönnum. Mest getur ríkið framkvæmt um 38 þúsund próf á dag en þau voru einungis 21.328 á síðasta sólarhring.

Sérfræðingur sem Reuters fréttaveitan ræddi við segir hægt að lesa tvennt út úr gögnunum eins og þau eru í dag. Í fyrsta lagi virðist sem að Bretland hafi orðið sérstaklega illa fyrir fyrstu bylgju smita Covid-19, sjúkdómnum sem nýja kórónuveiran veldur.

Hitt er að svo virðist sem að hátindinum sé náð. Yfirvöld muni þrátt fyrir það tilkynna hundruð dauðsfalla á degi hverjum á næstunni en þau muni fækka. Það muni þó gerast hægt í fyrstu.

Hámarkið var þann 9. apríl þegar 980 dauðsföll voru tilkynnt.

Tölur yfirvalda ná enn sem komið er bara yfir þá sem deyja á sjúkrahúsum og ekki þá sem deyja á dvalarheimilum eða eigin heimilum. Yfirvöld hafa verið gagnrýnd fyrir að hunsa dauðsföll eldri borgara og standa ekki vörð um þá.

BBC segir hundruð dauðsfalla vera ótalin.

Sjá einnig: Yfirvöld Bretlands sökuð um aðgerðarleysi varðandi eldri borgara

Prófessorinn Anthony Costello sagði á fjarfundi heilbrigðismálanefndar breska þingsins að Bretar hafi verið of lengi að bregðast við útbreiðslu veirunnar og það útskýri að hluta til hve margiri hafi dáið í Bretlandi. Hann vísaði til spálíkana og sagði að þegar faraldurinn væri yfirstaðinn gætu 40 þúsund manns hafa dáið.

Hann varaði þar að auki við því að dreifingin gæti náð stökki aftur seinna og ríkið þyrfti að koma upp góðu kerfi til að greina smit víðsvegar um landið.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×