Innlent

Aukið brottkast en engir auka fjármunir til Fiskistofu

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Fiskistofa hefur ekki hlotið aukið fjármagn.
Fiskistofa hefur ekki hlotið aukið fjármagn. Vísir/Gíslason

Fiskistofa hefur enn ekki fengið aukið fjármagn til að sinna eftirliti með brottkasti þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi fyrir einu og hálfu ári bent á að eftirlitið væri veikburða og nauðsynlegt væri að styrkja það. Sviðsstjóri hjá Fiskistofu segir að brottkast hafi aukist síðustu ár.

Fram kom í fréttum RÚV í apríl að skuttogarinn Múlaberg í eigu útgerðarfélagsins Ramma á Siglufirði hafi verið sviptur veiðileyfi í tvær vikur vegna brottkasts. Skipstjórinn fullyrti þar að þetta hafi aðeins verið nokkrir fiskar. Fiskistofa hefur 6 leiðir til að taka á brottkasti og er svipting veiðileyfis næst mesta refsingin hjá stofnuninni. Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir er sviðsstjóri veiðieftirlitssviðs Fiskistofu.

Áslaug Eir Hólmgeirsdóttir er sviðsstjóri hjá Fiskistofu.

„Skipið Múlaberg var svipt veiðileyfi í tvær vikur og voru þessi brot meiriháttar og ákvörðunin byggir á að töluvert mörgum fisktegundum hafi verið kastað í sjóinn,“ segir Áslaug.

Hún segir að þorskur hafi verið meðal þeirra tegunda sem kastað var fyrir borð.

Ríkisendurskoðun benti á í desember 2018 að eftirlit með brottkasti væri ófullnægjandi og mikilvægt væri að styrkja Fiskistofu. Áslaug segir að enn hafi ekki meira fjármagni verið veitt til eftirlitsins.

„Fiskistofa hefur ekki fengið meiri fjárheimildir til að setja meiri kraft í eftirlit með brottkasti. Stutta svarið er að gögn benda til að brottkastið sé að aukast. við sjáum það til dæmis í brotaskýrslum um brottkast frá árinu 2018. Við erum líka í samstarfi við Hafró í brottkastsverkefni og þar má sjá aukningu milli ára en Hafró birtir þær niðurstöður.“

Í kjölfar úttektar Ríkisendurskoðunar árið 2018 var skipaður starfshópur sem á að skila tillögum um Fiskistofu þær hafa enn þá ekki komið fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×