Lífið

„Ég hefði jafnvel átt að sýna sjálfri mér enn meiri mildi“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnheiður Agnarsdóttir gaf á dögunum út Lífsgæðadagbókina.
Ragnheiður Agnarsdóttir gaf á dögunum út Lífsgæðadagbókina. Vísir/Vilhelm

Ragnheiður Dögg Agnarsdóttir aðstoðar fólk við að bæta lífsgæði og huga betur að grunnstoðunum. Hún segir mikilvægt að fólk staldri við og hlusti á eigin hugsanir ef það lendir í vítahring varðandi svefn, hreyfingu, næringu og samskipti. Allt of margir fórni lífsgæðum sínum verulega fyrir vinnuna.

Fyrir fjórum árum stofnaði Ragnheiður því fyrirtækið sitt Heilsufélagið og nýtir þar eigin persónulegu reynslu og starfsreynslu sem stjórnandi til þess að hjálpa öðrum.

„Heilsufélagið er ráðgjafarþjónusta fyrir einstaklinga, fyrirtæki og stofnanir sem vinnur að umbótum sem allar miðað því að gera fólk og vinnustaði betur í stakk búin við að takast á við áskoranir – bæði í starfi og einkalífi. Hugmyndin að baki Heilsufélaginu er sú að gott jafnvægi sé lykill að árangri. Bæði einstaklingar og fyrirtæki þurfa að hlúa vel að grunnstoðum sínum. Einstaklingar gera það best með því að vera með sterka jarðtengingu sem við fáum til dæmis með því að skoða hugsanir okkar, væntingar og þrár og hlúa vel að okkur með góðum svefni, næringu, samskiptum og hreyfingu. Verkefni Heilsufélagsins síðustu misseri hafa til dæmis snúið að því að vinna að hagkvæmum útfærslum á styttingu vinnutíma, stjórnendaráðgjöf, stefnumótun í lýðheilsu- og forvarnarmálum og verkefnastjórn í Lífsgæðasetri St. Jó. í Hafnarfirði.“

Áföllin setja allt úr skorðum

Ragnheiður var áður framkvæmdastjóri hjá stóru tryggingafélagi. Hún segir að frá upphafi hafi Heilsufélagið gengið vel.

„Verkefnin eru fjölbreytt og kalla oft á mikið samstarf við fleiri aðila sem er afar skemmtilegt og gefandi.“

Hún segir að öll þjálfun, til dæmis í formi menntunar, sé góð og opni nýjar víddir en eigi það líka til að steypa marga í sama mótið.

„Persónuleg reynsla okkar er því það sem greinir okkur frá öðru fólki. Það hefur enginn upplifað það sama og þú. Ég held því að það hvernig við nálgumst lífið og tilveruna ráðist mjög af reynslu okkar. Bæði það sem við gerum og ekki síður það sem við veljum að gera ekki.“

Áföll og álag geta sett allt úr skorðum í lífi fólks og hefur það mikil áhrif á lífsgæðin.

„Áföll eru afskaplega flókið fyrirbæri. Það er alveg ljóst að engin fer í gegnum lífið án þess að upplifa áfall. Við upplifum atburði ólíkt, það að lenda í bílslysi án þess að slasast líkamlega getur skilið eftir sig andlegt sár hjá einum á meðan að annar leiðir hugann lítið sem ekkert að atburðinum og er jafnvel bara þakklátur fyrir að hafa ekki slasast. Við getum oft ekki ráðið því hvort að við upplifum ákveðna atburði sem valda okkur áfalli eins og til dæmis að veikjast en við getum ráðið því í hvaða ástandi við erum þegar slíkt gerist með því aða vera á hverjum degi að hlúa að okkur bæði andlega og líkamlega.“

Ragnheiður segir að það sé mikilvægt að forgangsraða vel, svo það sem er nærandi og skemmtilegt fái meira pláss.Mynd/Salka

Hefði ekki komist i gegnum skaflana

Ragnheiður missti eiginmann sinn úr krabbameini árið 2011 eftir stutta baráttu.

„Það var gríðarlegt áfall bæði fyrir mig, börnin og fjölskylduna alla. Daglegt líf tók algjörlega nýja stefnu. Ég var hins vegar svo heppinn að eiga sterkt bakland bæði í einkalífi og starfi og því komumst við í gegnum þetta nánast óbærilega verkefni.“

Hún segist hafa tækla þessa áskorun með því að fyrst og fremst hlúa að sér og sínum. „Gefa mér tíma til þess að hreyfa mig, borða vel, sofa mikið og vera í stöðugum samskiptum við mína nánustu. Eftir á að hyggja held ég að ég hefði jafnvel átt að sýna sjálfri mér enn meiri mildi en ég gerði. Það komu tímabil þar sem að sársaukinn var svo mikill að það var bara einhvern vegin auðveldara að bægja honum frá en að takast á við hann.“

Áfallið mótaði hana ekki bara sem einstakling heldur líka sem stjórnanda og vinnufélaga.

„Ég er klárlega sterkari manneskja á eftir og þakklátari fyrir hluti sem margir líta á sem sjálfsagða eins og heilsuna og fjölskylduna. Ég vona að ég hafi orðið betri vinkona samstarfsfólks míns. Ég skyldi lengi vel ekki þörfina fyrir það að eiga vinkonu eða vin í vinnunni en eftir að hafa farið í gegnum mitt verkefni þá lá það bara fyrir að án vina minna í vinnunni hefði ég líklega ekki komist í gegnum skaflana.“

Virkar bara ef hún er notuð

Ragnheiður gaf út Lífsgæðadagbókina til þess að hjálpa fólki að hámarka lífsgæði. Bókina gaf hún út í þeirri trú að hver dagur hafi þann megintilgang að auka styrk og hugrekki fólks til þess að lifa lífinu til hins ítrasta. Ragnheiður vildi líka hjálpa fólki að ná markmiðum án þess að vera í stöðugu kapphlaupi við tímann.

„Lífsgæðabókin er góður vinur eða vinkona þeirra sem kjósa að lifa hvern dag eins vel og mögulegt er – óháð þeim aðstæðum sem þeir eru í hverju sinni. Bókin nýtist bæði þeim sem eru í frábæru andlegu og líkamlegu formi og vilja viðhalda því en ekki síður þeim sem eru að takast á við erfiðar áskoranir. Ég veit til þess að fólk sem er til að mynda að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð noti bókina mikið en einnig þeir sem eru sífellt á hreyfingu og lifa heilbrigðu lífi en vilja kynnast hugsunum sínum betur og fjölga þeim verkefnum í daglegu lífi sem er það sem þá langar mest að gera – í stað þess að vera alltaf að gera það sem þarf að gera.“

Hún segir að það skipti nefnilega miklu máli að setja það sem er nærandi og skemmtilegt í forgang og takmarka nauðsynleg verkefni sem eru ekki nærandi. Allt þetta snýst um forgangsröðun.

„Ég hef fengið dásamlegar lýsingar á því hvernig bókin hefur hjálpað fólki að kynnast sér betur, auka hreyfingu, bæta svefn, laga mataræði, rækta meira þakklæti og auka þannig lífsgæði sín og hamingju í daglegu lífi. Bókin er eins og annað, hún virkar ef hún er notuð. Það er til dæmis ekki nóg að kaupa sér hjól til þess að auka hreyfingu. Maður þarf víst að nota það til þess að það skili árangri.“

Fjölskyldustundum fórnað fyrir vinnu

Hver opna er rammi fyrir einn dag. Engar dagsetningar eru í dagbókinni svo ef fólk skrifar ekki í einn eða fleiri daga, þá þarf ekki að sleppa úr blaðsíðum. Öll bókin nýtist. Þetta verður að teljast raunsætt því flestir, ef ekki allir, missa úr einn og einn dag í skipulaginu.

„Á vinstri síðu er rammi fyrir hugleiðingar, svefn, næringu, hreyfingu og samskipti en á hægri síðu listi yfir það sem þig langar mest að gera, það sem þú þarft að gera, þakklæti og góðverk. Í lok dagsins gefur þú honum einkunn. Ramminn varð til vegna þess að ég var með nokkra stjórnendur á íslenskum vinnumarkaði í samtölum í byrjun árs 2017 og þrátt fyrir að vera að fást við ólíkar áskoranir í sínum störfum, áttu þeir það allir sameiginlegt að hafa fórnað lífsgæðum sínum verulega fyrir vinnuna. Þeir hreyfðu sig of lítið, borðuð ekki nægjanlega holla fæðu, sváfu ekki nóg, áttu of fáar stundir með fjölskyldu og vinum og voru þess vegna sífellt í skuld við sjálfan sig og aðra. Þegar staðan er þessi í daglegu lífi þarf að fara aftur að grunni lífsgæða og byggja hann upp aftur með markvissum hætti og þannig að nýtt lífsmynstur viðhaldi sér.“

Lífið á ekki að snúast um eitt markmið

Ragnheiður segir að bókin sé í raun sá rammi. Hún er þakklát Sölku fyrir að gefa Lífsgæðadagbókina út og hafa trú á því að bókin ætti erindi við sem flesta.

„Alþjóða Heilbrigðismálastofnunin, WHO, hefur skilgreint grunnstoðir lífsgæða. Að því gefnu að þú hafir húsaskjól og aðgang að fæðu þá eru það hreyfing, svefn, næring og samskipti sem eru grunnstoðir lífsgæða.“

Það vakti athygli blaðamanns að í bókinni eru sérstakir dálkar sem hvetja fólk til þess að hugsa um góðverk og þakklæti. Ragnheiður segir að þessi hluti þjóni mikilvægum tilgangi í hugarfarsbreytingu fólks.

„Rannsóknir hafa sýnt að það að vinna góðverk og að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur í dag eru þeir þættir sem hafa hvað mest áhrif á hamingju fólks. Það er nefnilega algengur misskilningur að það að ná markmiði í fjarlægri framtíð auki lífshamingju til lengri tíma. 

Oft á tíðum upplifir fólk mikinn tómleika eftir að hafa unnið að verkefni í langan tíma og svo líkur því skyndilega. 

Þar með er ég ekki að segja að það sé ekki gott vinna að markmiðum. Ég er mjög hrifinn að þeirri leið og hún virkar afskaplega vel, ég er hins vegar ekki eins hrifinn af því að allt okkar líf snúist um aðeins eitt markmið.“

Nauðsynlegt að stíga út úr hringnum

Ragnheiður ráðleggur þeim sem eru nú þegar komnir í slæman vítahring varðandi svefn, næringu, hreyfingu eða samskipti, að staldra við og hlusta á hugsanir sínar. Þetta er eitthvað sem hún notar sjálf.

„Að fara einn út í góðan göngutúr, fjallgöngu eða skógarhlaup og setjast svo niður og ná utan um hugsanirnar og skrifa í Lífsgæðadagbókina. Það eru alltaf ástæður fyrir því að við missum jafnvægið, oft er það flótti frá augljósum en oft á tíðum erfiðum verkefnum. Það að ætla til dæmis að hreyfa sig meira eða bæta mataræði er flókið verkefni. Það að koma sér upp nýju hegðunarmynstri til dæmis þegar við kaupum inn krefst tíma og skipulags.“

Hún segir að margir upplifi að þeir hafi alls ekki þennan tíma og séu því áfram fastir í vítahringnum.

„Hvern dag sem við veljum að stíga ekki út úr vítahringnum erum við í raun að velja að minnka lífsgæði okkar.“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.