Fyrrum NFL-stjarnan, Tim Tebow, er búinn að fá samning hjá hafnaboltaliðinu New York Mets.
Tebow telur vera nokkuð ljóst að hann fái ekki fleiri tækifæri í NFL-deildinni og ákvað því að reyna fyrir sér í hafnaboltanum enda hæfileikaríkur íþróttamaður.
Hann er búinn að æfa grimmt síðustu mánuði. Hann boðaði svo útsendara liðanna á opna æfingu með sér á dögunum. Þeir svöruðu kallinu frá honum og mættu allir.
Það skilaði sínu því Tebow er búinn að fá samning hjá New York Mets. Þetta er í annað sinn sem hann semur við félag í New York en hann samdi við NFL-lið New York Jets á sínum tíma.
Þar fékk hann aldrei alvöru tækifæri og dó NFL-ferill hans í borginni. Spurning hvort hann fái fleiri tækifæri í hafnaboltanum í borginni stóru.
Hann mun þó ekki hoppa beint í MLB-deildina. Tebow mun spila með einhverju neðrideildarliða Mets. Standi hann sig þar fær hann tækifæri með Mets.
Tebow hefur ekki spilað hafnabolta síðan í framhaldsskóla en hann er orðinn 29 ára gamall.
