Sport

Eiginmaðurinn tók þríþrautarkempuna bókstaflega úr sambandi: „Þvílíkur bjáni“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mirinda Carfrae kemur hér í mark í þríþrautarkeppni árið 2018 en vegna COVID-19 hefur hún ekki getað keppt að undanförnu
Mirinda Carfrae kemur hér í mark í þríþrautarkeppni árið 2018 en vegna COVID-19 hefur hún ekki getað keppt að undanförnu EPA-EFE/BRUCE OMOR

Samkomubann og útbreiðsla kórónuveirunnar hefur séð til þess að þríþrautarfólk keppir ekki þessa dagana ekki frekar en flest annað íþróttafólk. Íþróttakeppnum hefur verið frestað út um allan heim.

Hin ástralska Mirinda Carfrae er fyrrum heimsmeistari í þríþraut og hefur enn mikla þörf fyrir að keppa. Hún ætlaði ekki að láta samkomubann stoppa sig og ákvað að nýta sér nýjustu tækni til að fá útrás fyrir keppnisskapið.

Mirinda fann nefnilega leið til þess að keppa þegar sett var upp sýndarveruleikakeppni þar sem keppendur kepptu í gegnum netið frá heimilum sínum.

Keppnin hét „Ironman VR Pro Challenge“ og Mirinda Carfrae tók þátt frá heimili sínu í Colarado fylki í Bandaríkjunum.

Keppnin var send út í beinni á fésbókinni og var mjög spennandi. Mirinda Carfrae varð í öðru sæti þegar ógæfan dundi yfir.

Tim O’Donnell, eiginmaður Mirinda Carfrae og einnig þríþrautarkappi, varð þá á þau mistök að taka eiginkonu sína bókstaflega úr sambandi.

Hann kom inn í herbergið til hennar og féll um rafmagnssnúruna og tók vélina um leið úr sambandi.

Mirinda Carfrae sagði frá því í viðtali í fésbókarútsendingu keppninnar að eiginmaðurinn hafi komið inn í herbergið til að hvetja hana áfram en endaði á því að klúðra keppninni fyrir hana.

„Hann tók þá ákvörðun að koma með bikarana mína inn í herbergið til að hvetja mig áfram en þegar hann labbaði aftur fyrir vélina þá tók hana úr sambandi. Þvílíkur bjáni,“ sagði hin 39 ára gamla Mirinda Carfrae.

Það þarf varla að taka það fram en keppnin var búin fyrir Mirinda Carfrae og það dugði ekkert að setja hana aftur í samband.

Mirinda Carfrae ætlar samt ekki að hefna sín þegar eiginmaðurinn keppir í karlaflokki. 

„Tim er að keppa um næstu helgi en ég ætla ekki að taka hann úr sambandi,“ sagði Mirinda Carfrae.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×