Erlent

Alifuglar bólusettir í Kína

Kínversk stjórnvöld hafa flutt meira en þrjár milljónir skammta af bóluefni gegn fuglaflensu til afskekkts svæðis í landinu eftir að farfuglar fundust dauðir af völdum veirunnar. Fuglaflensan hefur dregið 37 menn til dauða í Víetnam, 12 í Taílandi og fjóra í Kambódíu frá því hennar varð vart í Asíu árið 2003. Samkvæmt kínverskum fjölmiðlum hefur herferð verið hrundið af stað þar sem bólusetja á fiðurfénað í héraðinu Quinghai í Vestur-Kína en þar fundust farfuglar, meðal annars 10 gæsir, sem drápust af völdum veirunnar. Engar fregnir hafa borist af því að fólk á svæðinu hafi smitast. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur þó að tölur yfir smitaða í Taílandi bendi til þess að veiran sé að stökkbreytast á þann veg að hún smitist manna á milli. Stjórnvöld í Kína eru á vissulega á varðbergi, ekki síst eftir að fregnir bárust að fuglaflensutilfellum í Norður-Kóreu og í Suðaustur-Asíu, og hafa hert sóttvarnir við landamæri landsins til muna. Á síðasta ári tókst að koma í veg fyrir útbreiðslu veirunnar í Kína eftir að 50 alifuglar drápust. Hagsmunirnir sem verja á eru gríðarlegir, ekki einungis ef litið er til hugsanlegs manntjóns því Kína er í öðru sæti á eftir Bandaríkjunum yfir mestu útflytjendur fuglakjöts.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×