Innlent

Enginn bilbugur á geislafræðingum

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Enn ríkir pattstaða um kjaramál geislafræðinga. Þeir funduðu með stjórnendum Landspítalans í dag og höfnuðu þar málamiðlun spítalans sem átti að tryggja lágmarksmönnun.

Um sjötíu prósent geislafræðinga munu hætta störfum á fimmtudaginn en þeir fara fram á bætt kjör, launahækkanir og bætt starfskjör.

Á fundinum í dag óskuðu forsvarsmenn Landspítalans þess að ef til uppsagna komi verði þeim háttað líkt og um verkfall sé að ræða, að unnið sé samkvæmt neyðarlistum sem eiga að uppfylla lágmarksmönnun.

„Við mættum á fundinn og létum vita að viðbrögð geislafræðinga hefðu verið þau að þeir myndu ekki taka þátt í því sem um hafði verið beðið. Ásamt því að láta vita að Félag geislafræðinga getur ekki skikkað sína félagsmenn til að gera það, enda höfum við ekkert vald yfir þeim." segir Katrín Sigurðardóttir, formaður Félags geislafræðinga.

Landspítalinn vinnur nú að neyðaráætlun vegna uppsagnanna. Gert er ráð fyrir að hægt verði að sinna neyðartilfellum, en það er hins vegar vilji stjórnenda spítalans að ná sáttum við geislafræðinga. Fundað verður aftur á mánudaginn þar sem skipulagsbreytingar verða ræddar.

„Ég heyri engan bilbug hjá þeim geislafræðingum sem hafa sagt upp, það er ekkert sem hefur komið fram sem er að fá geislafræðinga til breyta afstöðu sinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×