Menning

„Samfélagsleg tabú virðast ekki eiga við í þessari sköpun“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Una Björg Bjarnadóttir á sviðinu í verkinu Rhythm of Poison sem frumsýnt var um helgina.
Una Björg Bjarnadóttir á sviðinu í verkinu Rhythm of Poison sem frumsýnt var um helgina. Mynd/Steve Lorenz

Íslenski dansflokkurinn frumsýndi um helgina verkið Rhythm of Poison, sem er glænýtt verk eftir hina margverðlaunuðu Elinu Pirinen. „Elina er mjög einstakur listamaður sem ég hreifst með frá fyrstu sekúndu. Hún ber mikla virðingu fyrir dönsurum og tekur utan um þeirra framlag til verksins með mikilli alúð,“ segir dansarinn Una Björg Bjarnadóttir.

„Þetta hefur verið eitt af þeim ferlum þar sem þú áttar þig á að vinnan þín sem sviðslistakona snýst ekki bara um þessa einu útkomu af sýningu, eða „framleiðsluvöru“ ef hægt væri að kalla, heldur hefur ferlið sitt eigið líf, sem ekki er hægt að framleiða. Þegar þetta líf er svona ótrúlega margþætt, óheflað, heiðarlegt jafnvel í óheiðarleikanum og titrandi af sköpunarkrafti er hægt að biðja um lítið annað.“ 

Rhythm of Poison er fjörug og hrífandi tjáningarveisla þar sem iðkaður er dulvitundardans og dýrðlegur söngur í dásamlegri veröld dómsdagstónlistar- og mynda. Það er löngun danshöfundarins Pirinen að vinna náið með ímyndunaraflið, kynhvöt, villileika og nánd.

„Skilin milli áhorfenda og dansara eru ekki með hefðbundnu leikhússniði. Áhorfendur sitja í sama rými og dansarar sýna. Það er mjög sérstök samkennd sem skapast þegar áhorfendur og dansarar deila rými á þennan hátt,“ útskýrir Una.

Una segir að það sé frelsandi að losna undan því sem er tabú í samfélaginu.Mynd/Sigga Ella

Hundar verða alltaf hundar

Rhythm of Poison er samið í samstarfi við Íslenska dansflokkinn, tónskáldið Ville Kabrell, dramatúrginn Heide Väätänen og sviðslistamanninn Valdimar Jóhannsson.

„Ég myndi lýsa því sem draumkenndu dómsdags-sviðsverki þar sem bókstaflega öll skilningarvitin víbra í harmoníu með dönsurum, rýminu og tónlistinni.“ 

Með Unu dansa þau Elín Signý Weywadt Ragnarsdóttir, Félix Urbina Alejandre, Halla Þórðardóttir, Saga Sigurðardóttir, Shota Inoue og Sigurður Andrean Sigurgeirsson.

„Undirbúningur hefur gengið vel, enda ótrúlegir listamenn sem kemur að þessu verki, dramatúrginn Heidi Väätänen og tónlistarmaðurinn Ville Kabrell hafa verið viðstödd meirihlutann af ferlinu og gegna mjög stóru hlutverki í sköpuninni, sama má segja með Valdimar Jóhannsson sem sér um lýsingu. Það var áhugavert þegar við fengum hundana til liðs við okkur, en þeir munu taka þátt í sýningunni. Það var frábær og mjög óvenjulegur partur af undirbúningnum þar sem hundar verða alltaf hundar.“

Una Björg Bjarnadóttir og Saga SigurðardóttirMynd/Sigga Ella

Ólýsanlega frelsandi

Verkið er sagt tæla áhorfendur til þess að drukkna í eigin hugsunum og verða vitni af ómengaðri gleði, framför, afturför, rómantík, hugrekki örvæntinga og fegurð þráhyggjunnar.

„Eitt af því skemmtilegasta við þetta verk er hvað samfélagsleg tabú virðast ekki eiga við í þessari sköpun. Það er ólýsanlega frelsandi,“ segir Una.

„Verkið er í sjálfu sér ein stór áskorun fyrir mann sem dansara en líka fyrir áhorfendur, áskorun á samfélagið okkar og heiminn sem við búum í. Það er einhver jörð í þessu verki sem mér finnst oft týnast í þessu týpíska daglega amstri. Það þarf eiginlega að koma og upplifa til að sjá hvað ég meina.“

Þrjár sýningar eru eftir í þessum mánuði og segir Una að stemningin sé alveg einstök. „Orkan sem skapast í svona nánu samtali við áhorfendur þykir mér mjög annt um sem einstaklingur innan verksins.“ 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×