Erlent

Segir Assange hafa makað saur á sendiráðsveggina

Kjartan Kjartansson skrifar
Sögusagnir höfðu lengið verið á kreiki um að hreinlæti Assange í sendiráðinu hefði verið ábótavant.
Sögusagnir höfðu lengið verið á kreiki um að hreinlæti Assange í sendiráðinu hefði verið ábótavant. Vísir/EPA

Forseti Ekvadors fullyrðir að Julian Assange, stofnandi Wikileaks, hafi makað saur sínum á veggi sendiráðs landsins í London þar sem hann hafðist við í tæp sjö ár. Nægilegar ástæður hafi verið fyrir hendi til að afturkalla hæli sem ekvadorsk stjórnvöld höfðu veitt Assange.



Breskir lögregluþjónar sóttu Assange í sendiráð Ekvadors í London í síðustu viku eftir að ríkisstjórn Lenín Moreno afturkallaði hæli sem honum hafði verið veitt árið 2012. Í kjölfarið kom fram að bandarísk yfirvöld höfðu krafist framsals Assange vegna ákæru um að hann hefði lagt á ráðin um að brjótast inn í tölvu varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna.



Í viðtali við breska ríkisútvarpið BBC varði Moreno forseti ákvörðunina um að svipta Assange hælinu og réttlætti hana. Assange hefði meðal annars farið ófögrum orðum um Ekvador og kallað landið ómerkilegt.



„Að auki, og mér þykir miður að þurfa að segja það á þennan hátt, makaði hann jafnvel saur, hans saur, á veggi sendiráðs okkar. Ég tel að þetta sé nægileg ástæða til að afturkalla og binda enda á hæli hans,“ segir Moreno í viðtalinu.



Lögmaður Assange hefur áður sagt að ásakanir ekvadorskra stjórnvalda á hendur honum sé svívirðilegar. Moreno hefur einnig fullyrt að Assange hafi notað sendiráðið sem „njósnamiðstöð“ og brotið gegn skilmálum hælis hans.



Assange var í síðustu viku dæmdur sekur um að hafa brotið gegn skilmálum lausnar sem hann fékk gegn tryggingu árið 2012. Á þeim tíma hafði hann tapað baráttu sinni gegn því að vera framseldur til Svíþjóðar þar sem hann var sakaður um kynferðisbrot. Það var þá sem hann leitaði hælis í sendiráði Ekvadors hvar hann dvaldi þar til á fimmtudag.



Hann á yfir höfði sér tólf mánaða fangelsi á Bretlandi og gæti einnig verið framseldur til Bandaríkjanna.




Tengdar fréttir

Julian Assange handtekinn

Julian Assange, stofnandi Wikileaks, var handtekinn í morgun í sendiráði Ekvadors í London. Þar hefur hann dvalið í sjö ár. Þetta herma breskir miðlar eftir lögreglunni í Bretlandi.

Icesave-lekinn í greinargerð FBI um Assange: „10 Reykjavik 13“

Í greinargerð bandarísku alríkislögreglunnar FBI um mál Julians Assange er sérstaklega fjallað um leyniskýrslur bandaríska sendiráðsins um samskipti íslenskra ráðamanna í tengslum við Icesave-málið. Trúnaðargögnunum var lekið til WikiLeaks árið 2010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×