Enski boltinn

„Erum að leggja hart að okkur á æfingum og þetta eru von­brigði“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Maguire þakkar Troy Deeney fyrir leikinn.
Maguire þakkar Troy Deeney fyrir leikinn. vísir/getty

Harry Maguire, varnarmaður og fyrirliði Manchester United, var ekki upplitsdjarfur eftir að hann og samherjar hans töpuðu 2-0 fyrir botnliði Watford fyrr í dag.

„Við gáfum boltann of oft frá okkur, sérstaklega í fyrri hálfleiknum. Mér leið í fyrri hálfleiknum eins og við værum að fara vinna leikinn. Við áttum að skora í fyrri hálfleiknum. Við þurfum að gera betur gegn liðunum í neðri hlutanum sem verjast djúpt,“ sagði Maguire í leikslok.

„Við vorum slakir á boltanum. Við stýrðum fyrri hálfleiknum og þeir ógnuðu ekkert. Við héldum þó boltanum ekki á nægilega miklum hraða og enduðum á því að missa hann. Þá sóttu þeir hratt. Við verðum að gera betur.“







Jesse Lingard klúðraði algjöru dauðafæri í fyrri hálfleik er hann slapp einn í gegn. Maguire segir að hann viti manna best að hann hafi átt að gera betur.

„Hann veit að hann á að skora. Þetta var stór möguleiki í leiknum. Fyrsta markið er mikilvægt. Ég klúðraði færi gegn Newcastle og við töpuðum. Hann klúðraði færi í dag en við höldum áfram. Við hefðum átt að vinna leikinn þrátt fyrir það en við gerðum það ekki.“

„Við vorum ekki nægilega góðir og við þurfum að bæta okkur. Það er eitthvað sem við getum ekki sett fingur á. Við erum að leggja hart að okkur á æfingum og þetta eru vonbrigði.“

David de Gea gerði hörmuleg mistök í fyrsta marki Watford en Maguire hefur ekki áhyggjur af Spánverjanum.

„David er topp markvörður. Ég hef einungis verið hér í nokkra mánuði en hann er heimsklassamarkvörður. Við munum standa vörð um hann og á annan í jólum er ég viss um að hann muni verja frábærlega,“ sagði Maguire.




Tengdar fréttir

United tapaði gegn botnliðinu

Manchester United varð af mikilvægum stigum í baráttunni um Meistaradeildarsæti er liðið tapaði fyrir Watford.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×