Erlent

Skjald­baka ó­hult eftir að hún kveikti í húsi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Skjaldbakan kveikti í húsi eigenda sinna á jóladag.
Skjaldbakan kveikti í húsi eigenda sinna á jóladag. facebook/ESSEX FIRE AND RESCUE

Skjaldböku, sem kveikti í húsi eigenda sinna, hefur verið bjargað. Skjaldbakan, sem er fjörutíu og fimm ára gömul var ein heima þegar hún felldi hitalampa sem datt ofan á sængurföt í húsinu í Duton Hill í Bretlandi á jóladag. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Slökkviliðið var kallað á staðinn klukkan 16:30 að staðartíma eftir að nágrannar heyrðu í reykskynjara og tóku eftir reykfylltu húsinu. Gary Wain, slökkviliðsstjóri, sagði í samtali við BBC að vonandi myndi skjaldbakan lifa löngu lífi.

„Þetta sýnir hvað það er mikilvægt að hafa reykskynjara á heimilinu,“ sagði hann. Þá ítrekaði hann að jafnvel þótt heimilisfólk væri ekki heima vekti reykskynjarinn athygli nágranna.

„Þessi skjaldbaka var mjög heppin á jóladag, hann er fjörutíu og fimm ára gamall og mun vonandi halda áfram að lifa löngu og hamingjusömu lífi, allt þökk sé reykskynjurum,“ sagði hann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×