Innlent

Andlát: Vilhjálmur Einarsson

Birgir Olgeirsson skrifar
Vilhjálmur var 85 ára þegar hann lést.
Vilhjálmur var 85 ára þegar hann lést.

Vilhjálmur Einarsson lést á Landspítalanum laugardaginn 28. desember. Vilhjálmur fæddist á Hafranesi við Reyðarfjörð 5. júní 1934. Hann var sonur hjónanna Einars Stefánssonar frá Mýrum í Skriðdal, fulltúa á Egilsstöðum, og Sigríðar Vilhjálmsdóttur frá Hánefsstöðum í Seyðisfirði. Vilhjálmur gekk í barnaskólann á Reyðarfirði, farskólann á Völlum, Gagnfræðaskólann á Seyðisfirði og Alþýðuskólann á Eiðum.

Að loknu landsprófi frá Eiðum innritaðist Vilhjálmur í Menntaskólann á Akureyri árið 1951 og útskrifaðist sem stúdent frá stærðfræðideild vorið 1954. Haustið 1954 hlaut Vilhjálmur skólastyrk við Dartmouth-háskólann í Bandaríkjunum og útskrifaðist þaðan með BA-próf með áherslu á listasögu. Þá sótti Vilhjálmur framhaldsnám í uppeldis- og kennslufræði við Gautaborgarháskóla 1974-1975 og 1990-1993.

Vilhjálmur lagði mikið af mörkum til íslenskra fræðslu- og æskulýðsmála. Hann var kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1957-1958; skólastjóri við Héraðsskólann á Laugarvatni, 1959 vorönn; kennari við Gagnfræðaskóla Austurbæjar, 1959-1960 og kennari við Samvinnuskólann á Bifröst, 1959-1965. Þá var Vilhjálmur skólastjóri Héraðsskólans í Reykholti á árunum 1965-1979 á miklu blómaskeiði skólans. Loks gegndi Vilhjálmur starfi skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum frá upphafi skólans 1979 til ársins 2001 og vann þar mikið brautryðjendastarf.

Frá 2001 var Vilhjálmur um árabil stundakennari við Menntaskólann á Egilsstöðum og árið 2001 stofnaði hann Námshringjaskólann sem var í námskeiðsformi. Meðal annarra starfa má nefna að hann stofnaði og rak Íþróttaskóla Höskuldar og Vilhjálms ásamt Höskuldi Goða Karlssyni íþróttakennara 1960-1972. Var skólinn starfræktur í Mosfellsdal, Varmalandi og Reykholti í Borgarfirði. Vilhjálmur stofnaði bókaforlagið Að austan sem gaf út tvær bækur: Magisterinn og Silfurmaðurinn. Hann var formaður Ungmennasambands Borgarfjarðar 1967-1970 en þá var m.a. Sumarhátíðin í Húsafelli sett á laggirnar.

Vilhjálmur er meðal fræknustu íþróttamanna Íslendinga fyrr og síðar. Meðal annars vann hann til silfurverðlauna fyrstur Íslendinga á Ólympíuleikunum í Melbourne 1956 og var 5 sinnum kjörinn íþróttamaður ársins. Vilhjálmur er handhafi Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag í þágu íþrótta- og uppeldismála.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.