Innlent

Veðrið náð há­marki sínu á vestan­verðu landinu en sprengilægðin þokast austur á land

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan þrjú í nótt.
Vindaspá Veðurstofunnar fyrir klukkan þrjú í nótt. Veðurstofa Íslands

Óveðrið sem gengið hefur yfir landið í dag og kvöld hefur nú náð hámarki sínu á Norðvestur- og Vesturlandi að sögn Haraldar Eiríkssonar, veðurfræðings á Veðurstofu Íslands. Þá er veður líka mjög slæmt á Suðurlandi og helst sennilegast þannig í nótt.

Hann segir veðrið á norðvestan- og vestanverðu landinu breytast lítið í nótt þótt það dragi aðeins úr því.

„Svo lægir smám saman á morgun, í eftirmiðdaginn á morgun verður þetta 13 til 18 metrar á sekúndu vestan til. Þetta gerist hægt, lægðin er svo hægfara.“

Mesti meðalvindhraði í veðrinu núna mældist fyrr í kvöld á Skálafelli, 58,2 metrar á sekúndu. Það er fjallastöð og segir Haraldur að hún sýni enn svipaðan vindstyrk.

Á láglendi hafi mesti meðalvindhraði hins vegar farið í 32 til 33 metra á sekúndu á nokkrum stöðvum á norðvestanverðu landinu, til dæmis á Gjögurbakkaflugvelli og Hrútafirði. Á láglendi hafi síðan mælst hviða undir Ingólfsfjalli sem náði 50 metrum á sekúndu og við Blönduós mældist ein 49 metrar á sekúndu.

Í nótt og á morgun færir lægðin sig síðan austar á landið. Þar á veðrið því eftir að ná hámarki sínu.

„„Það er fyrst á Norðausturlandi í nótt og svo hvessir mikið á Austur- og Suðausturlandi þegar líður á nóttina og í fyrramálið. Það má eiginlega segja að vindstrengurinn sem er núna yfir vesturhelmingi landsins hann þokast austur. Í fyrramálið verður veðrið verst á austurhelmingnum,“ segir Haraldur.

Hann segir að veðrið á Norðausturlandi verði álíka slæmt í nótt eins og það hefur verið á norðvestanverðu landinu í dag og kvöld.

„Svo er spáin mjög slæm í fyrramálið fyrir Austfirðina og Suðausturland, svæðið sunnan Vatnajökuls, þar verður mjög sterkur vindur væntanlega í fyrramálið. Svo seinnipartinn á morgun þá fer þetta að ganga aðeins niður.“Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.