Sport

Dómari sendir einn meðlim bandaríska kraftaverkaliðsins á öryggissjúkrahús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mark Pavelich
Mark Pavelich Getty/Cook County Jail

Dómari í Minnesota hefur fyrirskipað að einn meðlimur úr kraftaverkaliði Bandaríkjanna frá Ólympíuleikunum 1980 verði lagður inn á öryggissjúkrahús.

Sá um ræðir er Mark Pavelich sem hjálpaði bandaríska íshokkíliðinu að vinna Ólympíugull í Lake Placid árið 1980. Bandaríkjamenn unnu 4-3 sigur á Sovétríkjunum í úrslitaleiknum en Sovétmenn höfðu unnið fimm síðustu af sex Ólympíugullum þegar koma að þessum Vetrarleikum.

Þetta er einn frægasti sigurinn í sögu Ólympíuleikanna og hefur verið kallað „Kraftaverkið á ísnum“ eða „Miracle on Ice“. Mark Pavelich lagði upp tvö mörk bandaríska liðsins í úrslitaleiknum þar á meðal sigurmark Mike Eruzione.Dómarinn úrskurðaði að Mark Pavelich væri andlega veikur og að hann væri hættulegur öðrum.

Mark Pavelich er nú 61 árs gamall en hann lék 355 leiki í NHL-deildinni fyrir New York Rangers, Minnesota North Stars og San Jose Sharks á árunum 1981 til 1992. Hann fékk atvinnumannasamning í framhaldi af frammistöðu sinni á Ólympíuleikunum.

Upphaf dómsmálsins má rekja til þess að Mark Pavelich var handtekinn fyrir líkamsárás í ágúst en hann barði þá vin sinn með járnstöng og braut hjá honum mörg bein. Pavelich sakaði þennan vin sinn um að hafa sett eitthvað út í bjórinn hans.

Dómarinn taldi Mark Pavelich óhæfan til að fara í gegnum réttarhöld og málinu verður frestað á meðan ríkið reynir að fá pláss fyrir Mark Pavelich á öryggissjúkrahúsi. Það mun síðan verða ákveðið í febrúar hversu löngum tíma Pavelich þarf að eyða á slíkri stofnun.

Fjölskylda Pavelich er á því að hann þjáist af CTE heilabilun eftir að hafa fengið fjölda heilahristinga á ferli sínum. Þau segjast hafa farið að sjá breytingar á hegðun hans fyrir nokkrum árum en hann sjálfur hefur neitað að leita sér aðstoðar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.