Erlent

Lýsa yfir neyðarástandi vegna flóðanna í Feneyjum

Kjartan Kjartansson skrifar
Ferðakona fleytir ferðatöskunni sinni á Markúsartorgi í Feneyjum á miðvikudag. Torgið er einn lægsti punktur borgarinnar og því hafa flóðin verið sérstaklega slæm þar.
Ferðakona fleytir ferðatöskunni sinni á Markúsartorgi í Feneyjum á miðvikudag. Torgið er einn lægsti punktur borgarinnar og því hafa flóðin verið sérstaklega slæm þar. AP/Luca Bruno
Ítölsk stjórnvöld eru sögð ætla að lýsa yfir neyðarástandi í Feneyjum vegna flóðanna þar. Meira en 80% borgarinnar fer nú undir vatn á háflóði og fjöldi íbúa án rafmagns vegna þess. Borgarstjórinn hefur kennt loftslagsbreytingum af völdum manna um háa sjávarstöðu og óttast varanlegar skemmdir á borginni sögufrægu.

Vatnshæðin hefur náð 1.87 metrum í Feneyjum undanfarna daga og flætt hefur inn í Markúsarkirkju. Áfram er varað við mikilli vatnshæð en hún á þó ekki að verða meiri en 1.30 metrar yfir sjávarmáli, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Guiseppe Conte, forsætisráðherra, segir flóðin mikið áfall og að ríkisstjórnin ætli að grípa snögglega til aðgerða til að leggja fram fé og efni til að borða menningarminjum sem borgin er þekkt fyrir.

„Það tekur á að sjá borgina svo skemmda og menningararfleið hennar í hættu,“ segir Conte sem er sagður ætla að lýsa yfir neyðarástandi í dag.

Luigi Brugnaro, borgarstjóri Feneyja, segir að Markúsarkirkjan hafi orðið fyrir alvarlegum skemmdum. Hún er á einum lægsta punkti borgarinnar og hafa flóðin valdið sérstaklega miklum usla þar. Grafhýsi undir kirkjunni fylltist alveg af vatni og óttast er að súlur í kirkjunni hafi orðið fyrir skemmdum.

Borgin stendur á fleiri en hundrað eyjum í lóni við norðausturströnd Ítalíu og þar verða reglulega flóð. Flóðin nú eru þó ein þau mestu frá því að skipulagðar mælingar hófust. Vatnshæðin hefur aðeins einu sinni mælst hærri, árið 1966 þegar hún náði 1.94 metrum.

Flóðin nú eru rakin til mikils stórstreymis og veðuraðstæðna á Adríahafi. Brugnaro hefur sagt loftslagsbreytingar af völdum manna leika hlutverk í flóðunum. Með hlýnandi loftslagi og bráðnun jökla hefur sjávarstaða á jörðinni hækkað.


Tengdar fréttir

Allt á floti í Feneyjum

Á myndum sést hvernig sjór þekur Markúsartorg og íbúar og ferðamenn þurfa að vaða til að komast á milli staða.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.