Fótbolti

Moldóvar á þriðja þjálfara í þessari undankeppni

Óskar Ófeigur Jónsson í Chisinau skrifar
Engin Firat tekur hringinn með sínum mönnum fyrir leikinn á móti Frökkum í París.
Engin Firat tekur hringinn með sínum mönnum fyrir leikinn á móti Frökkum í París. Getty/Xavier Laine

Eitt heitasta þjálfarasætið í boltanum virðist vera hjá næstu mótherjum Íslands í undankeppni EM. Ísland mætir Moldóvu í kvöld.

Moldóvska knattspyrnusambandið hefur nefnilega skipt tvisvar sinnum um þjálfara landsliðsins síns síðan að undankeppni EM 2020 hófst í mars.

Alexandru Spiridon var þjálfari landsliðs Moldóvu þegar undankeppni hófst í marsmánuði. Hann hafði verið þjálfari liðsins frá 2018 en var einnig landsliðsþjálfari á árinu 2001.

Spiridon stýrði liðinu í fyrstu fjórum leikjunum þar á meðal í 1-0 sigri á Andorra en í þeim síðasta undir hans stjórn tapaði liðið 2-0 á útivelli á móti Albaníu.

Það var ekki gengið sem felldi Alexandru Spiridon heldur varð hálfgerð uppreisn innan liðsins vegna óánægju með hans störf. Nokkrir leikmenn neituðu þannig að spila með landsliðinu á meðan hann var þjálfari.

Moldóvar ákváðu þá að skipta um þjálfara. Úkraínumaðurinn Semen Altman stýrði landsliði Moldóvu í fyrsta sinn í tapinu á Laugardalsvellinum í júní en fékk síðan aðeins þrjá leiki til viðbótar.

Semen Altman var rekinn eftir 4-0 tap á heimavelli á móti Albaníu 14. október síðastliðinn. Moldóvar höfðu tapað öllum fjórum leikjunun undir stjórn og markatalan í þeim var -12. Liðið náði ekki að skora eitt einasta mark ekki einu sinni í leiknum á móti Andorra sem tapaðist 1-0.

Engin Firat fékk það verkefni að klára þessa undankeppnina og liðið stóð vel í Frökkum í fyrsta leik hans sem þjálfara. Moldóvar komust í 1-0 á móti Frökkum á Stade de France í Saint-Denis en heimsmeistararnir tryggðu sér nauman 2-1 sigur.

Þessi fyrsti leikur liðsins undir stjórn Engin Firat var besti leikur liðsins í langan tíma og sýnir íslensku strákunum að moldóvska liðið er sýnd veiði en ekki gefin.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.