Matráðar með niðurgang taki sér tveggja daga frí

Matvælastofnun hvetur fólk sem meðhöndlar mat til að halda sig heima sé það með niðurgangspest, í hið minnsta tvo sólarhringa eftir að einkenni hverfa. Margar slíkar pestir gangi nú manna á milli um þessar mundir, til að mynda nóróveirusýkingar eins og Vísir hefur greint frá síðustu daga. Þannig fundu næstum 80 starfsmann KPMG fyrir einkennum sem svipuðu til nóróveirusmits og þá var ungbarnaleikskóla í Grafarvogi lokað í tæpa viku vegna veirunnar.
Helstu einkenni nóróveirusýkingar eru niðurgangur eða uppköst sem fylgt geta kviðverkir, beinverkir, höfuðverkur og stundum vægur hiti. Tími frá smiti þar til einkenni koma fram eru 1 til 2 sólarhringar. Sjúkdómurinn gengur í langflestum tilfellum yfir á einum til þremur sólarhringum án nokkurrar meðferðar.
Sjá einnig: Aukning á niðurgangspestum hérlendis
Fólk sem verkar eða ber fram mat er í kjörstöðu til að dreifa niðurgangspestum, að sögn Matvælastofnunar. Smitleiðir eru margar og getur veiran smitast beint manna á milli við snertingu.
„Smitaðir einstaklingar sem starfa í veitingahúsum, mötuneytum, verslunum og matvælavinnslum skulu ávallt forðast að meðhöndla matvæli þar til tveimur dögum (48 klst) eftir að sjúkdómseinkenni hverfa,“ segir í aðvörun Matvælastofnunar.
Þar segir jafnframt að uppköst séu bráðsmitandi og að til séu dæmi þess að veiran hafi borist í loftinu til fólks í nánasta umhverfi. Þá sé jafnframt algengt að veiran smitiast með fæðu og vatni eftir aðkomu sýkts einstaklings. Einnig geti matvæli mengast í framleiðslunni með menguðu vatni við vökvun eða skolun.
Tengdar fréttir

Aukning á niðurgangspestum hérlendis
Bæði MAST og embætti Landlæknis fjalla í greinum á heimasíðum stofnanna um aukningu á niðurgangspestum á Íslandi.

Skæð magapest starfsmanna KPMG tilkynnt til sóttvarnalæknis
Veikindi starfsmanna á skrifstofu ráðgjafafyrirtækisins KPMG voru tilkynnt til sóttvarnalæknis á mánudag.

Nær ómögulegt að útrýma nóróveiru
Um tíma var rúmlega helmingur leikskólabarna fjarverandi vegna veikinda. Sóttvarnalæknir segir ómögulegt að útrýma veirunni.