Innlent

Vill minnast Auðar með minnis­varða í borgar­landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hildur Björnsdóttir og Auður Auðuns, fyrrverandi borgarstjóri, þingkona og ráðherra.
Hildur Björnsdóttir og Auður Auðuns, fyrrverandi borgarstjóri, þingkona og ráðherra. vísir/vilhelm/Alþingi
Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist munu leggja til á næsta fundi skipulagsráðs borgarinnar að Reykjavíkurborg reisi minnisvarða um Auði Auðuns, fyrrverandi borgarstjóra, þingkonu Sjálfstæðisflokksins og ráðherra.

Frá þessu greinir Hildur á Facebook-síðu sinni. Hún segir að margir hafi að undanförnu ljáð máls á því að hægt væri að minnast Auðar í borgarlandinu í einhverjum hætti.

„Það þykir mér prýðileg hugmynd og ríma vel við áherslur Listasafns Reykjavíkur, sem hefur tileinkað árið 2019, list í almannarými,“ segir Hildur, en næsti fundur skipulagsráðs fer fram næstkomandi miðvikudag.

Hildur minnir á að Auður hafi verið fyrst kvenna til að hefja laganám í Háskóla Íslands, verið fyrst kvenna til að ljúka embættisprófi í lögfræði árið 1935, fyrst kvenna til að gegna embætti borgarstjóra (1959-60) og ráðherraembætti (1970-71). „Sannkallaður brautryðjandi sem vert er að minnast,“ segir borgarfulltrúinn.

Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, þingkonu Sjálfstæðisflokksins og fyrstu konunnar til að taka sæti á þingi, var afhjúpuð við Skála Alþingis árið 2015. Var það fyrsta heila höggmyndin af nafngreindri konu í Reykjavík.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×