Innlent

Vill minnast Auðar með minnis­varða í borgar­landinu

Atli Ísleifsson skrifar
Hildur Björnsdóttir og Auður Auðuns, fyrrverandi borgarstjóri, þingkona og ráðherra.
Hildur Björnsdóttir og Auður Auðuns, fyrrverandi borgarstjóri, þingkona og ráðherra. vísir/vilhelm/Alþingi

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segist munu leggja til á næsta fundi skipulagsráðs borgarinnar að Reykjavíkurborg reisi minnisvarða um Auði Auðuns, fyrrverandi borgarstjóra, þingkonu Sjálfstæðisflokksins og ráðherra.

Frá þessu greinir Hildur á Facebook-síðu sinni. Hún segir að margir hafi að undanförnu ljáð máls á því að hægt væri að minnast Auðar í borgarlandinu í einhverjum hætti.

„Það þykir mér prýðileg hugmynd og ríma vel við áherslur Listasafns Reykjavíkur, sem hefur tileinkað árið 2019, list í almannarými,“ segir Hildur, en næsti fundur skipulagsráðs fer fram næstkomandi miðvikudag.

Hildur minnir á að Auður hafi verið fyrst kvenna til að hefja laganám í Háskóla Íslands, verið fyrst kvenna til að ljúka embættisprófi í lögfræði árið 1935, fyrst kvenna til að gegna embætti borgarstjóra (1959-60) og ráðherraembætti (1970-71). „Sannkallaður brautryðjandi sem vert er að minnast,“ segir borgarfulltrúinn.

Stytta af Ingibjörgu H. Bjarnason, þingkonu Sjálfstæðisflokksins og fyrstu konunnar til að taka sæti á þingi, var afhjúpuð við Skála Alþingis árið 2015. Var það fyrsta heila höggmyndin af nafngreindri konu í Reykjavík.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.