Erlent

Aðstoðarmanni Trump sagt upp störfum eftir að hafa lekið upplýsingum

Andri Eysteinsson skrifar
Westerhout hefur starfað náið með Trump frá fyrsta degi forsetatíðar hans.
Westerhout hefur starfað náið með Trump frá fyrsta degi forsetatíðar hans. Getty/WP
Nánasta aðstoðarmanni Bandaríkjaforseta, hinni 29 ára gömlu Madeleine Westerhout hefur verið sagt upp störfum eftir að upp komst um leka upplýsinga um fjölskyldu Trump forseta. BBC greinir frá.

CBS greinir frá því að Westerhout hafi talað við blaðamenn um fjölskylduhagi Trump þar sem hún sat að sumbli í fríi sínu sem hún varði í New Jersey. Er hún sögð hafa montað sig af tengslum við forsetann en hún hafði unnið fyrir hann frá fyrsta degi forsetatíðar hans.

New York Times greindi fyrst frá brottrekstri Westerhout hefur eftir ónefndum heimildarmanni innan Hvíta hússins að henni hafi ekki verið hleypt inn í Hvíta húsið er hún mætti til vinnu í dag.

Ekki er vitað hvernig forsetinn frétti af samtali Westerhout og blaðamannanna í New Jersey fyrr í mánuðinum. Westerhout hefur haft mikinn aðgang að Trump og hans störfum enda er skrifstofa hennar beint fyrir framan skrifstofu forseta.

Trump er sagður hafa haft mikið dálæti á Westerhout áður en að hann komst að upplýsingalekanum en hann er sagður hafa talað um hana sem gersemi og sagt hana einn mikilvægasta starfsmann sinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×