Erlent

Lið­þjálfi skaut fimm aðra her­menn

Samúel Karl Ólason skrifar
Liðþjálfinn Quornelius Radford í haldi herlögreglu í Fort Stewart í Georgíu.
Liðþjálfinn Quornelius Radford í haldi herlögreglu í Fort Stewart í Georgíu. AP/Lewis M. Levine

Liðþjálfi í her Bandaríkjanna skaut fimm aðra hermenn á einni af stærstu herstöðvum ríkisins í gær. Árásarmaðurinn var fljótt yfirbugaður af öðrum hermönnum á svæðinu. Tilefni skothríðarinnar liggur ekki fyrir en árásarmaðurinn, sem er 28 ára gamall, notaði skammbyssu sem hann átti sjálfur.

Stórum hlutum herstöðvarinnar var lokað um tíma í gær en árásin sjálf stóð þó mjög stutt yfir.

Allir hermennirnir sem særðust eru sagðir í stöðugu ásigkomulagi en yfirmaður herdeildarinnar segir hermennina sem stöðvuðu árásina klárlega hafa bjargað lífum.

Í frétt AP fréttaveitunnar segir að árásarmaðurinn, Quornelius Radford, hafi skotið aðra hermenn á vinnustað sínum á herstöðinni. Talsmenn hersins segja tilefnið til rannsóknar en opinber gögn benda til þess að hann hafi verið handtekinn fyrir ölvunarakstur í maí og að hann hafi átt að mæta í dómsal vegna þessa þann 20. ágúst.

Radford tilheyrir sérstöku stórfylki innan svokallaðrar „þriðju herdeild fótgönguliða“, sem búið er sérstökum brynvörðum farartækjum og hefur verið lýst sem nútímavæddasta stórfylki bandarískra fótgönguliða. Hann hefur aldrei tekið þátt í átökum.

Bannað að bera byssur á herstöðvum

Skotárásir á herstöðvum í Bandaríkjunum eru ekki tíðar. Árið 2009 skaut hermaður þó þrettán til bana og særði á fjórða tug manna á herstöð í Texas. Árið 2013 skaut sjóliði tólf manns til bana í flotastöð í Washingtonríki.

AP segir spurningar á kreiki vestanhafs um af hverju árásarmaðurinn var yfirbugaður en ekki skotinn af öðrum hermönnum.

Hermönnum er meinað að bera skotvopn á herstöðvum, tilheyri þeir ekki herlögreglu, en sú regla hefur verið í gildi í áratugi.


Tengdar fréttir

Fimm hermenn skotnir á herstöð

Loka þurfti stórum hluta herstöðvarinnar Fort Stewart í Georgíu í Bandaríkjunum í dag eftir að maður hóf þar skothríð á hermenn. Fimm hermenn voru skotnir af árásarmanninum, sem var svo handsamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×