Lífið

Þjóðleikhúsið hvetur naggrísi af öllum kynjum til að sækja um

Andri Eysteinsson skrifar
Mikilvægt er að naggrísinn sem verður fyrir valinu láti ekki frægðina stíga sér til höfuðs.
Mikilvægt er að naggrísinn sem verður fyrir valinu láti ekki frægðina stíga sér til höfuðs. Getty/Arterra
Leikverkið Shakespeare verður ástfanginn verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 4. október næstkomandi, þrátt fyrir að nokkuð skammt sé til frumsýningar hefur enn ekki verið ráðið í öll hlutverk.

Greinilegt er að erfitt hefur verið að fá leikara í hlutverk gæludýrs John Webster því Þjóðleikhúsið neyddist í dag til þess að grípa til þess ráðs að auglýsa eftir leikara á Facebook. Í auglýsingunni segir að helsta hæfnikrafan sé sú að umsækjandi sé naggrís.

„Um er að ræða lítið, raunar afar smátt, hlutverk í öllum skilningi, en til stendur að ráða naggrís í leikarahópinn,“ segir í auglýsingunni.

Þá segir að verkefni og ábyrgð þess naggríss sem hneppir hnossið verði að fara með hlutverkið, mæta tímalega á æfingar og taka þátt í tilfallandi markaðsstarfi svo sem viðtölum við fjölmiðla.

Naggrís sem eygir stóra drauma á stóra sviðinu og gælir við það að sækja um hlutverkið þarf, samkvæmt auglýsingunni að vera nákvæmur í starfi og að hafa gott vald á naggrísku. Naggrísinn þarf ekki að vera leikaramenntaður en reynsla og þekking á leikhúsi og sviðslistum er kostur.

Naggrísir af öllum kynjum eru hvattir til þess að sækja um hlutverkið en frekari upplýsingar má sjá hér að neðan.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×