„Í dag kveðjum við formlega jökulinn Ok"

Minningarathöfn fór fram við fyrrverandi jökulinn Ok í dag. Ok varð árið 2014 fyrsti jökullinn til að missa titil sinn sem slíkur en vísindamenn telja ljóst að sömu örlög blasi að óbreyttu við jöklum heims vegna loftslagsbreytinga.
Viðstaddur var nokkuð stór hópur fólks, þeirra á meðal Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra og Mary Robinson, fyrrverandi forseti Írlands. Erlendir fjölmiðlar fylgdust jafnframt með athöfninni en málið hefur vakið heimsathygli.
Að ræðuhöldum loknum um hádegisbil í dag var gengið af stað upp að Ok þar sem minnisvarða verður komið fyrir. Textann á minnisvarðanum skrifaði rithöfundurinn og umhverfisverndarsinninn Andri Snær Magnason en þar eru rituð skilaboð til framtíðarinnar og minningarorð um jökulinn.
Í samtali við fréttastofu segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að tími til aðgerða í loftslagsmálum sé löngu kominn. Bæði einstaklingar og fyrirtæki auk stjórnvalda um allan heim verði að bregðast við. Nánar var rætt við Katrínu í hádegisfréttum Bylgjunnar í dag en hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að neðan.“
Tengdar fréttir

Óttast að minnisvarðinn um Ok verði ekki sá síðasti
Vísindamenn sem áttu hugmyndina að því að setja minnismerki við dauða jökulinn Ok óttast að þótt minnisvarðinn sé fyrsti sinnar tegundar í heiminum verði hann ekki sá síðasti.

Nasa birtir myndir af hverfandi ísbreiðu Oks
Nasa Earth birti í gær myndband á Twitter þar sem sýndur er munurinn á ísbreiðu Okjökuls á milli áranna 1986 og 2019 og eru breytingarnar gríðarlegar.