Tíska og hönnun

Frændur hanna föt og mála skó

Sandra Guðrún Guðmundsdóttir skrifar
Frændurnir Aron Kristinn Antonsson og  Smári Stefánsson ferðast með hönnun sína á sérmerktum bíl.
Frændurnir Aron Kristinn Antonsson og Smári Stefánsson ferðast með hönnun sína á sérmerktum bíl.
Frændurnir Smári Stefánsson og Aron Kristinn Antonsson stofnuðu nýlega fatamerkið YEYO Clothing. Þeir selja eigin hönnun. Bæði föt og skó.

Þetta er glænýtt, við byrjuðum bara í júní og vorum þá með markað á Secret Solstice,“ segir Smári. Hann hannaði fatalínuna sem eins og stendur er tvær flíkur, svört velúrskyrta og motocross-treyja. Eftir sumarið er svo von á úlpu, flíspeysu og jakka. „Ég hef aldrei hannað áður, þetta var bara áhugamál. Ég hélt ég gæti þetta og prófaði bara,“ segir Smári um ástæðu þess að hann fór út í fatahönnun.

„Ég talaði svo við frænda minn, þar sem hann er mjög myndarlegur og bað hann um að vera módel. Mig vantaði myndir af einhverjum í fötunum,“ segir Smári. Frændinn, Aron Kristinn, ákvað að slá til og vera með í fatalínunni en hann hafði verið að mála skó með sérstakri leðurmálningu.

„Ég var búinn að vera að fylgja alls konar fólki á samfélagsmiðlum sem var að mála skó og mig langaði að prófa. Svo bara elskaði ég að gera þetta,“ segir Aron.

Frændurnir voru með bás á Sectret Solstice þar sem þeir seldu fötin og skóna. „Fólk gat komið með eigin skó sem ég málaði eftir óskum fólks eða ég kom með hugmynd fyrir fólkið sjálfur. En svo var ég líka að selja tilbúna skó. Ég er mest að mála leðurskó en fólk var líka að koma með Vans skó til mín, sem eru úr öðruvísi efni. Þá þarf að þynna málninguna. Það er alls konar tækni við það eftir því hvernig efni þú ert að vinna með,“ segir Aron.

Smári segir að þeir séu að hugsa um að vera með pop-up búð í Reykjavík og selja fötin þar. Þeir eru með bíl sem þeir myndu þá leggja á mismunandi stöðum og auglýsa viðburðinn á samfélagsmiðlum. „Þetta er svona hugmynd en við eigum eftir að skipuleggja þetta betur,“ segir hann og bætir við að þeir hafi selt ágætlega af fötum og skóm á Secret Solstice þar sem þeir voru staddir með bílinn.

„Fólk hefur líka verið að hafa samband við mig eftir Solstice og biðja mig að mála skó og ég hef verið að taka inn skó og mála þá. Ef við setjum upp svona pop-up búð þá myndi ég vera með málninguna mína þar og fólk getur mætt með skóna en ég verð líka með tilbúna skó.“

Hægt er að skoða fatalínuna á yeyoclothing.com en vefsíðan er í vinnslu. Einnig er hægt að fylgja YEYO á Facebook og Instagram.

Fatalínan samanstendur af svartri velúrskyrtu og motocross-treyju. Vetrarföt eru væntanleg.
Aron málar skó með sérstakri leðurmálningu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×