Sport

Fyrrum heims- og Evrópumeistari náði bara 36 ára aldri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Craig Fallon.
Craig Fallon. Getty/Ezra Shaw
Craig Fallon er fallinn frá en hann var mjög sigursæll júdómaður þegar hann var upp á sitt besta.

Fallon var aðeins 36 ára gamall. Hann týndist á laugardaginn og fannst látinn á sunnudag.

Þetta er mikið áfall fyrir júdóheiminn enda að missa fyrrum heims- og Evrópumeistari á besta aldri.

Craig Fallon varð heimsmeistari í -60 kílóa flokki í Kaíró í Egyptalandi árið 2005 og varð síðan Evrópumeistari árið eftir. Hann vann einnig heimsbikarinn árið 2007.

Fallon er síðasti Bretinn sem náði að vera heimsmeistari í júdó.

Fallon tók þátt í Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 og Ólympíuleikunum í Peking 2008. Hlutirnir gengu ekki alveg upp hjá honum á leikunum en hann náði þó sjöunda sætinu árið 2008.

Fallon hætti keppni árið 2011 en hann keppti á fjórum Evrópumeistaramótum og þremur heimsmeistaramótum á sínum ferli.

Hann hefur þjálfað júdófólk undanfarin ár, var í Austurríki í tvö ár en tók við landsliðsþjálfarastarfi Wales í mars.

Craig Fallon lætur eftir sig eiginkonu og son.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.