Erlent

Stuðningsmenn báðu Trump um að reka þingkonu úr landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Trump virðist ætla að gera kynþáttahyggju að meginstefi í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar á næsta ári.
Trump virðist ætla að gera kynþáttahyggju að meginstefi í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Vísir/Getty
Donald Trump Bandaríkjaforseti hélt áfram árásum sínum á frjálslyndar þingkonur Demókrataflokksins á baráttufundi með stuðningsmönnum sínum í Norður-Karlólínu í gærkvöldi. Stuðningsmenn forsetans brugðust við með því að kyrja að Trump ætti að reka svarta þingkonu úr landi.

Þær Alexandria Ocasio-Cortez, Ilham Omar, Rashida Tlaib og Ayanna Pressley, fulltrúadeildarþingkonur Demókrataflokksins, hafa verið skotspónn Trump frá því um helgina. Þá sendi hann frá sér rasísk tíst um að þær ættu að yfirgefa Bandaríkin og  „fara aftur heim til sín“. Aðeins ein þeirra fæddist utan Bandaríkjanna.

Þrátt fyrir harða gagnrýni og ályktun fulltrúadeildarinnar þar sem ummælin voru fordæmd hefur Trump höggvið áfram í sama knérunn. Hann hefur vænt þingkonurnar um að hata Bandaríkin, gyðinga og styðja hryðjuverkasamtökin Ríki íslams. Ítrekað hefur hann sagt að fólk sem sé ósátt við stefnu Bandaríkin geti yfirgefið landið.

Á fundi með stuðningsmönnum sínum í Greenville í Norður-Karólínu hélt Trump uppteknum hætti. Þar sagði hann að atkvæði greitt demókrötum væri atkvæði með gereyðingu Bandaríkjanna. Eins hélt hann árásunum á þingkonurnar fjórar áfram.

„Þær elska ekki landið okkar og í sumum tilfellum held ég að þær hati landið okkar,“ sagði Trump.

Sérstaklega beindi forsetinn spjótum sínum að Omar. Hún fæddist í Sómalíu en kom til Bandaríkjanna tíu ára gömul. Eftir að hún komst inn á þing hefur hún verið gagnrýnin á stuðning Bandaríkjastjórnar við Ísrael og hefur sætt gagnrýni fyrir hvernig hún hefur talað um þrýstihóp fyrir ísraelsk stjórnvöld.

Laug Trump því upp á Omar að hún hefði lofað hryðjuverkasamtökin al-Qaeda. Eftir að hann fullyrti að Omar hefði gerst sek um gyðingaandúð gerði hann hlé á máli sínu því stuðningsmenn hans hrópuðu þá ákaft „Sendu hana til baka!“.

Trump hefur ekki svarað spurningum um hvert hann vildi að þingkonurnar fjórar færu frá Bandaríkjunum. Ocasio-Cortez er borin og barnfædd Bandaríkjamaður ættuð frá Púertó Ríkó sem er bandarískt landsvæði. Tlaib er fædd í Bandaríkjunum af palestínskum ættum og Pressley er albandarísk.

Omar brást við rasískum köllum stuðningsmanna Trump á Twitter með ljóði eftir Mayu Angelou.

„Þið getið skotið mig með orðum, þið getið skorið mig með augunum ykkar, þið getið drepið mig með hatri ykkar en samt, eins og loftið, mun ég rísa upp,“ tísti þingkonan frá Minnesota.


Tengdar fréttir

Fulltrúadeildin fordæmir ummæli Trump

Fulltrúadeild Bandaríkjaþings greiddi atkvæði um að fordæma ummæli Donald Trump Bandaríkjaforseta í garð þingkvenna Demókrataflokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×