Íslenski boltinn

Gott fyrir Valsmenn að skoða töfluna frá því á sama tíma í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsmenn fagna marki Ólafs Karls Finsen í Krikanum í gær.
Valsmenn fagna marki Ólafs Karls Finsen í Krikanum í gær. Vísir/Vilhelm
Titilvörn Vals hefur ekki byrjað vel en liðið situr í 9. sæti Pepsi Max deildar karla eftir fimm umferðir og er heilum níu stigum á eftir topplið ÍA.

Það er hins vegar mikið eftir af Íslandsmótinu og það væri gott fyrir leikmenn Valsliðsins að skoða töfluna frá því á sama tíma í fyrra.

Valsliðið var nefnilega bara í áttunda sæti eftir fyrstu fimm umferðirnar fyrir ári síðan.

Valur var reyndar með tveimur stigum meira þá og fjórum stigum nær toppsætinu en það breytir ekki því að Hlíðarendapiltar komust í gegnum erfiða byrjun fyrir ári síðan.

Valsliðið tapaði 2-1 á útivelli á móti Grindavík í 5. umferðinni sumarið 2018 en það var fyrsta deildartap liðsins á leiktíðinni.

Tapið á móti FH á Kaplakrikavelli í gær var aftur á móti þriðja deildartap liðsins í sumar en liðið tapaði einnig fyrir KA (0-1) og ÍA (1-2).

Valsmenn hafa unnið Íslandsmeistaratitilinn undanfarin tvö ár en byrjuðu þau tímabil mjög ólíkt. Valsliðið var í 2. sæti með 10 stig eftir fimm fyrstu leikina sumarið 2017.

Valsliðið fór á mikið flug eftir tapið í fimmtu umferðinni í fyrra og vann þá næstu sex leiki sína. Það þýddi að eftir ellefu umferðina þá var Valur með tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar.

Það að Valsmenn séu nú þremur sigurleikjum frá toppsætinu þýðir að liðið þarf að fara að vinna leiki ætli liðið sér að vinna Íslandsmeistaratitilinn þriðja árið í röð. Næstu tveir andstæðingar eru samt ekki að auðveldari gerðinni heldur lið Breiðabliks og lið Stjörnunnar.

Valsmenn eftir fimm umferðir 2019

9. sæti

4 stig í húsi

7 mörk skoruð

-2 í markatölu (7-9)

9 stig frá toppnum

Valsmenn eftir fimm umferðir 2018

8. sæti

6 stig í húsi

7 mörk skoruð

0 í markatölu (7-7)

5 stig frá toppnum






Fleiri fréttir

Sjá meira


×