Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: ÍA - FH 2-0 | Bjarki Steinn tryggði ÍA sigur

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Skagamenn hafa glatt marga með spilamennsku sinni í upphafi móts.
Skagamenn hafa glatt marga með spilamennsku sinni í upphafi móts. vísir/daníel þór
Sprækt Skagalið vann öruggan 2-0 sigur á FH-ingum en bæði lið voru taplaus fyrir umferðina.

Skagamenn byrjuðu leikinn frábærlega og skoraði Bjarki Steinn Bjarkason strax á 3. mínútu leiksins eftir frábæran undirbúning frá Árna Snæ Ólafssyni og Tryggva Hrafni Haraldssyni. Árni Snær greip þá aukaspyrnu Jónatans Inga Jónssonar og þrumaði knettinum á Tryggva Hrafn sem óð á vörn FH áður en hann lagði knöttinn á Bjarka Stein sem gat ekki annað en skorað.

Eftir markið lögðust Skagamenn aftarlega á völlinn og reyndu að beita skyndisóknum. Gekk það temmilega í fyrri hálfleik en hvorugt lið var þó nálægt því að skora þangað til Björn Daníel Sverrisson var næstum búinn að jafna metin undir lok fyrri hálfleiks eftir góða hornspyrnu Jónatans Inga. Árni Snær sá við honum og staðan enn 1-0 í hálfleik.

Síðari hálfleikurinn spilaðist nær nákvæmlega eins. Á 68. mínútu leiksins bætti Bjarki Steinn svo við öðru marki sínu og öðru marki heimamanna þegar hann þrumaði knettinum í slá og inn eftir góðan undirbúning varamannsins Steinars Þorsteinssonar. Sá hafði aðeins komið inn á fjórum mínútum áður.

Nokkrum mínútum síðar fékk Pétur Viðarsson, hægri bakvörður FH, beint rautt spjald fyrir kjaftbrúk en það er enn óvíst hvað hann á að hafa sagt við Pétur Guðmundsson, dómara leiksins. Eftir það fjaraði leikurinn út en Bjarki Steinn fékk þó tækifæri til að fullkomna þrennuna undir lok leiks en Vignir Jóhannesson sá við honum í marki FH.

Lokatölur á Skaganum 2-0 heimamönnum í vil og nýliðarnir enn taplausir þegar fjórum umferðum er lokið.

Af hverju vann ÍA?

Leikplan þeirra gekk fullkomlega upp. Skoruðu snemma og ógnuðu sí og æ með skyndisóknum sínum. Að sama skapi var sóknarleikur FH-inga einkar bitlaus og í raun ekkert líkur því sem liðið sýndi gegn KA um síðustu helgi. Það er ljóst að Hafnfirðingar sakna Steven Lennon. 

Hverjir stóðu upp úr?

Bjarki Steinn Bjarkason er augljósa valið með tvö frábær mörk. Tryggvi Hrafn Haraldsson var einnig frábær í framlínu heimamanna og þá var Árni Snær Ólafsson öryggið uppmálað í markinu. Það sannaðist þegar hann lék á sóknarmann FH sem reyndi að pressa hann upp við endalínu eftir að markvörðurinn hafði fengið sendingu til baka.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur FH gekk engan veginn upp og liðið náði litlum sem engum takti í leik sinn. Þeim gekk illa að brjóta sterka vörn ÍA á bak aftur og þá réðu þeir illa við hraðann í framlínu heimamanna.

Hvað gerist næst?

Á sunnudeginum 19. maí fer ÍA í heimsókn í Kópavoginn þar sem þeir mæta Breiðabliki í uppgjöri toppliðanna en gervigras þeirra Blika á loks að vera tilbúið. Degi síðar koma Íslandsmeistarar Vals í heimsókn í Kaplakrika en báðir leikir hefjast klukkan 19:15.

Gummi Kristjáns: Við erum ekki ungir og ferskir allavega

„Við byrjum á að fá okkur mark frekar snemma í leiknum og þá geta þeir lagst niður eins og þeir gera og við náum ekki að pota inn marki,“ sagði Guðmundur Kristjánsson en hann var vægast sagt ósáttur með leik kvöldsins sem tapaðist 2-0.

Fyrra mark ÍA kom úr skyndisókn eftir að Árni Snær hafði handsamað knöttinn. Guðmundur telur að FH hefði átt að gera betur í aðdraganda þess marks.

„Við vissum mætavel að þeir væru að fara gera þetta og já, að þetta geti gerst þegar við vitum að þetta er að fara gerast er ekki nógu gott. Hvort það er einbeitingarskortur eða hvað veit ég ekki en við þurfum að fara yfir það. Það er ekki nógu gott að þetta geti gerst á annari mínútu eða hvað sem það var,“ sagði fyrirliða gestanna pirraður í leikslok.

Aðspurður hvort leikmenn FH væru farnir að finna fyrir þreytu þar sem spilað er þétt og hópurinn þeirra nokkuð þunnur sem stendur (til að mynda aðeins sex leikmenn á bekk í kvöld) þá stóð ekki á svörum hjá Guðmundi.

„Við erum ekki ungir og ferskir allavega en við eigum að vera nógu fit til að ráða við þetta svo það er engin afsökun hjá okkur. Auðvitað eru við þreyttir eins og aðrir en það er eitthvað sem við þurfum að díla við og við eigum að vera með hóp til að ráða við þetta.“

Að lokum var fyrirliðinn spurður út í rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk en þetta er annar leikurinn af síðustu þremur í Pepsi Max deildinni sem FH lýkur með aðeins 10 leikmenn inn á vellinum.

„Pétur er ósáttur með dómarann og hreytir einhverju í hann og fær rautt spjald fyrir. Hvort að þeir eru hörundsárir eða þetta var eitthvað slæmt veit ég ekki þar sem ég veit ekki hvað hann sagði. Það er eins og það er, auðvitað er vont að klára leikinn einum færri í annað skipti á stuttum tíma og það er ekki líklegt til árangurs. Við þurfum að fara inn í okkur núna og gíra okkur upp fyrir næsta leik. Þetta er slæm tilfinning að tapa og tilfinning sem við viljum ekki venjast,“ sagði Guðmundur að lokum.

Bjarki Steinn: Jói Kalli er búinn að sýna mér mikið traust

„Frábær baráttusigur, við skoruðum í byrjun leiks en það lá svo aðeins á okkur en síðan héldum við þetta út og sýndum karakter og kláruðum þetta,“ sagði markaskori ÍA varðandi sín fyrstu viðbrögð eftir leikinn.

„Við erum virkilega sáttir með þetta. Við settum okkur markmið í byrjun móts og höfum fulla trú á þessu,“ sagði Bjarki Steinn ennfremur aðspurður út í hvort Skagamenn væru ekki sáttir með byrjun sína á mótinu en nýliðarnir eru með 10 stig og taplausir eftir fjórar umferðir.

Bjarki Steinn er ungur að árum og þakkar þjálfara sínum traustið en fáir þjálfarar í Pepsi Max deildinni virðast þora að gefa ungum leikmönnum tækifæri.

„Jói Kalli (Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari ÍA) er búinn að sýna mér mikið traust sem ég hef þakkað fyrir inn á vellinum.“

Að lokum var Bjarki spurður út í hversu þægilegt það er að spila með Árna Snæ Ólafssyni markverði ÍA en sá virðist geta sparkað boltanum hvert sem honum sýnist á knattspyrnuvelli.

„Þessar spyrnur eru geggjaðar hjá honum og mjög mikilvægar okkar leik,“ sagði Bjarki Steinn að lokum.

Óli Kristjáns: Við vissum að þeir væru góðir í skyndisóknum

„Við fáum mark á okkur mjög snemma sem Skagamenn gerðu mjög vel. Það kom þeim í góða stöðu og við náðum ekki að herja á þá nægilega vel til að jafna leikinn og þegar við vorum að reyna sækja jöfnunarmark skoruðu þeir úr skyndisókn. Þeirra leikstíll heppnaðist betur en okkar í dag og þeir unnu þennan leik verðskuldað,“ sagði Ólafur Helgi Kristjánsson þjálfari FH-inga aðspurður hvað hefði klikkað í kvöld.

Varðandi rauða spjaldið sem Pétur Viðarsson fékk hafði Ólafur þetta að segja.

„Mér skilst það hafi veri eitthvað orðbragð sem Pétri, dómara, hafi þótt ósæmandi og þar af leiðandi vikið honum af velli en ég treysti því að sú ákvörðun hafi verið rétt.“

Varðandi hvað þyrfti að laga fyrir næsta leik þá var Ólafur ekki sammála undirrituðum að FH liðið hefði mætt illa til leiks.

„Við fengum bara á okkur mark snemma. Við vissum að þeir væru góðir í skyndisóknum og náðum ekki að koma í veg fyrir það. Það var margt prýðilegt en við þurfum samt að laga það sem hægt er og halda áfram,“ sagði Ólafur að lokum.

Jóhannes Karl: FH-ingarnir sköpuðu ekki mikið

„Stoltur af strákunum, eins og alltaf reyndar. Þeir lögðu rosalega mikið á sig til að ná þessum þremur stigum hér í dag og frábær frammistaða,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari Skagamanna um sín fyrstu viðbrögð eftir sigur kvöldsins.

„Ég held að FH-ingarnir hafi ekki skapað mikið af færum og við ætluðum að loka á það. Við vitum að þeir eru með hörku lið og fullt af hæfileikaríkum einstaklingum í liðinu. Við vitum líka að við erum með hörku fótboltamenn og við náum að skora tvö glæsileg mörk og hefðum getað skorað fleiri,“ sagði Jóhannes aðspurður hvort leikplan þeirra Skagamanna hefði gengið fullkomlega upp í kvöld.

Þá tók hann undir þá fullyrðingu að það henti ÍA vel að lið þurfi að sækja gegn þeim

„Algjörlega. Það er frábært að geta verið með markmann sem getur spyrnt svona eins og Árni Snær og svona fljóta menn frammi eins og við erum með. Auðvitað hentar þetta ennþá betur þegar við náum að loka á lið, teyma þau framar á völlinn og sækja hratt á þau. Það var niðurstaðan í þessum leik í dag en við vissum að þegar við náðum forystunni að við myndum ekki gefa hana frá okkur.

Að lokum var Jóhannes spurður hvort hann hefði tekið 10 stig eftir fjórar umferðir fyrir mót.

„Ég held það,“ svaraði hann kíminn áður en hann gekk á brott til að taka þátt í fagnaðarlátum Skagamanna inn í klefa.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.