Íslenski boltinn

Börkur: Höfum ekki verið að vinna í því að selja Martin

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Gary Martin í leik gegn ÍA.
Gary Martin í leik gegn ÍA. vísir/daníel þór
Forráðamenn Vals halda þétt að sér spilunum í dag og tjá sig ekki mikið um framtíð framherjans Gary Martin. Ólafur Jóhannesson þjálfari vildi ekkert segja við Vísi í morgun og ekki fékkst mikið meira upp úr formanni knattspyrnudeildar, Berki Edvardssyni.

„Staðan er sú sama. Hann er hjá Val og allt í góðu. Við erum ekkert að reyna að losna við hann og höfum ekkert verið að gera það,“ sagði Börkur og vildi sem minnst gera úr málinu en Ólafur þjálfari sagði í gær að leikmaðurinn hentaði ekki liðinu og mætti finna sér nýtt lið.

„Hann má fara. Það er ekki stærri frétt en það. Þetta er bara sama staða og er hjá fjölda knattspyrnumanna um allan heim. Við höfum ekki verið að vinna í því að selja hann eða bjóða hann. Umboðsmaður hans sér um það ef slíkt er í gangi.“

Gary sagði við 433.is í gær að hann væri í áfalli yfir því að Valur vildi losna við sig og sagði félagið væri að setja sig í erfiða stöðu. „Ég sá ekki þá frétt. Ég þekki það ekki hvenær menn fá áföll og ekki. Ég ætla ekki að tjá mig um það,“ segir Börkur.

Gary tjáði Vísi í morgun að hann færi ekki í þessum glugga en ef hann væri ekkert að spila í júlí þá yrði hann að skoða sín mál á nýjan leik.

Börkur formaður býst ekki við því að Valur fái liðsstyrk í dag en segir að allt geti þó gerst í fótboltanum.

„Það er ekkert að gerast í þessu eins og staðan er núna.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×