Sport

Klofinn dómur þegar Sunna datt út í Kansas

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Sunna var ósigruð á atvinnumannaferlinum þar til í kvöld.
Sunna var ósigruð á atvinnumannaferlinum þar til í kvöld. vísir/allan suárez
Sunna Rannveig Davíðsdóttir er úr leik í keppni um strávigtarbelti Invicta-bardagasambandsins í kvöld. Átta keppendur keppa með útsláttarfyrirkomulagi og var bardagi Sunnu við hina bandarísku Kailin Curran fyrstur á dagskrá.

Currin var að keppa í fyrsta sinn í Invictus en á að baki sjö UFC-bardaga og má því kalla reynslubolta í faginu.

Bardaginn var í meira lagi dramatískur en hann var sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport eins og allt bardagakvöldið sem er svo til nýhafið. Hver bardagi í átta liða úrslitum er ein lota sem stendur yfir í fimm mínútur.

Curran fór betur af stað og náði góðum höggum á Sunnu sem átti á tímabili mjög í vök að verjast. Var hún kýld tvisvar í gólfið en gafst ekki upp. Hún náði að snúa bardaganum sér í hag, náði Curran í gólfið og lét höggin dynja í góðan tíma.

Curran náði að losa sig og var hart barist allt til loka. Ekki mátti milli sjá hvor þeirra hefði staðið sig betur.

Sunna virkaði bjartsýn á niðurstöðu dómara og voru vonbrigðin því mikil þegar í ljós kom að tveir dómarar dæmdu Curran í hag, 10-9, á meðan sá þriðji mat sem svo að Sunna hefði sigrað 10-9.

Sunna er því úr leik en bardagakvöldið heldur áfram í beinni á Stöð 2 Sport.


Tengdar fréttir

„Sunna er með alvöru hjarta“

Bardagakonan Sunna Rannveig Davíðsdóttir stígur í búrið í Kansas City annað kvöld en hún hefur ekki barist í 20 mánuði.

Sunna lent í Kansas City

Það eru aðeins þrír dagar í stærstu stund Sunnu "Tsunami“ Davíðsdóttur á ferlinum en hún berst þá um strávigtarmeistaratitilinn hjá Invicta-bardagasambandinu.

Sunna: Ég er með þeim bestu í heiminum

"Niðurskurðurinn gekk rosalega vel. Það er gott að mega borða vel í dag,“ segir Sunna "Tsunami“ Davíðsdóttir en hún var þá nýbúin að ná vigt fyrir bardagakvöld Invicta og var að fara að fá sér steik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×