Innlent

Hvar er opið um páskana?

Gígja Hilmarsdóttir skrifar
Helstu matvöruverslanir landsins eru opnar í dag.
Helstu matvöruverslanir landsins eru opnar í dag. fréttablaðið/valli
Opnunartímar verslana og þjónustu breytast yfir páskahátíðina en þó er hægt að verða sér út um helstu nauðsynjar á frídögum þessa helgina. Sundlaugar og skíðasvæði eru opin víða í dag.

Víða er opið í verslunum og hjá öðrum þjónustuaðilum í dag og um helgina. Verslanamiðstöðvarnar Kringlan og Smáralind eru opnar milli klukkan 13 og 18 í dag. Glerártorg opnar líka klukkan 13 í dag en lokað verður þar klukkan 17. Lokað verður á morgun föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum í verslanamiðstöðvum landsins.

Matvöruverslanir eru flestar opnar í dag en opið er í öllum verslunum Bónus í dag frá 10 til 19, lokað verður á föstudaginn langa og páskadag en opið verður milli klukkan 11 og 18 annan í páskum.

Krónan er með opið öllum verslunum sínum í dag. Á morgun, föstudaginn langa og á páskadag verður opið í Árbæ, Jafnarseli, Hamraborg, Hvaleyrarbraut, Nóatúni, Skeifunni og í Vík.

Verslanir Hagkaups eru opnar í dag en lokað verður á föstudaginn langa og á páskadag. Þá verður opið annan í páskum í Hagkaup Skeifunni, Garðabæ, Eiðistorgi, Spöng og Akureyri. 

Nettó er með opið í öllum sínum verslunum í dag. Á morgun, föstudaginn langa verður opið í Hrísalundi Akureyri og Hveragerði milli 10 og 21, Nettó Ísafirði opnar einnig klukkan 10 á föstudaginn langa og lokað verður klukkan 19.

Hefðbundinn opnunartími milli klukkan 10 og 20 verður í Melabúðinni í dag, föstudaginn langa og annan í páskum en lokað verður á páskadag. Fjarðarkaup er opið á milli 10 og 18 í dag og lokað verður á morgun, á páskadag og annan í páskum.

Vínbúðin er lokuð í dag og á morgun en opnar á laugardag. Lokað verður í Vínbúðinni á páskadag og annan í páskum.

Apótekarinn Austurveri er opinn alla páskana milli klukkan 9 og 24 og apótek Lyfju verða opin í Lágmúla, Smáralind, Smáratorgi, Granda og Reykjanesbæ í dag. Opið verður í Lyfju Lágmúla og Smáratorgi á föstudaginn langa og páskadag.

Heilsugæslustöðvar eru lokaðar í dag og fram yfir annan í páskum. Læknavaktin verður opin milli 9 og 23:30.

Akstur Strætó verður samkvæmt sunnudagsáætlun í dag, föstudaginn langa, páskadag og annan í páskum. Ekið verður samkvæmt hefðbundinni áætlun á laugardag.

Skíðað á Norðurlandi og Austurlandi

Þrátt fyrir endanlega lokun skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins þennan veturinn geta skíðamenn sem eru staddir fyrir norðan rennt sér í brekkum Hlíðarfjalls, Dalvíkur og Siglufjarðar. Þeir sem eru staddir á Austurlandi geta skíðað í Stafdal og í Oddskarði



Sundlaugar opnar víðast hvar á landinu

Sundlaugar höfuðborgarsvæðisins eru víða opnar milli 9 og 18 í dag og annan í páskum. Á föstudaginn langa og páskadag verður opið milli 10 og 18. Eins verður opið milli 10 og 18 í Sundhöll Ísafjarðar í dag og á morgun, opið mill 10 og 15 á páskadag og annan í páskum í sundhöllinni þar í bæ. Sundlaug Akureyrar verður opin í dag frá 9 til 19 yfir páskana en lokað verður klukkan 18:30 annan í páskum.  Sundlaugin á Egilsstöðum er opin milli 10 og 18 í dag, föstudaginn langa og á laugardag en lokað verður á páskadag og annan í páskum.

Húsdýra- og fjölskyldugarðurinn verður opinn alla páskana milli 10 og 17.

Fleiri opnunartíma veitingastaða, sundlauga og safna má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×