Innlent

Hundruð Íslendinga fastir í ítölskum skíða­bæ vegna fann­fergis og snjó­flóða­hættu

Jóhann K. Jóhannsson og Atli Ísleifsson skrifa
Mikil snjókoma hefur verið í Alpafjöllum síðustu vikur.
Mikil snjókoma hefur verið í Alpafjöllum síðustu vikur.

Á fjórða hundrað Íslendinga eru fastir í skíðabænum Livigno á Ítalíu vegna mikils fannfergis og snjóflóðahættu á svæðinu. Hluti hópsins átti að koma heim í dag en töf verður á því eitthvað fram í vikuna.

Mikil snjókoma hefur verið á þessum slóðum síðustu vikur bæði á Ítalíu, Sviss og í Austurríki og víðar. Fjölmörg snjóflóð hafa fallið.

Ingunn Pétursdóttir er einn fimm fararstjóra sem fyrir fyrir 140 manna hópa i skíðadeildar Breiðabliks og KR en í hópnum eru börn á aldrinum 5 til 15 ára auk foreldra. Hópurinn er á Ítalíu en í heildina eru á fjórða hundrað Íslendinga á svæðinu. 

„Við erum á Livigno á Ítalíu og hér er búið að snjóa stanslaust í tvo daga. Svona hálfur til heill metri af nýföllnum snjó. Hér er snjóflóðahætta út um allt. Það er lokað og við komumst ekkert úr bænum. Allar leiðir lokaðar,“ segir Ingunn.

Margar skíðalyftur lokaðar

Hluti hópsins átti að halda heim til Íslands í dag. „Það áttu að fara fimmtán manns frá okkur heim og svo er hérna annar hópur frá Íslandi, Austfirðingar, 180 manna hópur, og þau ætluðu að fara heim í dag en þau komast ekki.“ 

Ingunn segir að ekki séu allar skíðalyftur opnar í brekkunum þrátt fyrir mikinn snjó. „Það er svo snjóþungt að það eru ekki nema örfáar lyftur opnar núna.“ 

Góður andi í hópnum

Hún segir andann í hópnum góðan þrátt fyrir snjóflóðahættu og töf á heimferð. „Við erum lokuð inni eins og er. Það var reyndar hægt að komast til Mílanó, þannig að það eru einhverjir örfáir sem fóru þangað, en hinir eru að fara heim á fimmtudaginn.“

Ingunn segir útlit fyrir að fólk geti verið áfram á skíðum áður en það kemur aftur heim.

„Það er snjókoma og logn. Þetta er bara æði. Paradís bara,“ segir Ingunn Pétursdóttir fararstjóri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.