Innlent

Lokaþrif um helgina og afhending í lok mánaðar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjúkrahótelið við Hringbraut var afhent NLSH þann 30. nóvember óklárað vegna ágreinings.
Sjúkrahótelið við Hringbraut var afhent NLSH þann 30. nóvember óklárað vegna ágreinings. Vísir/vilhelm
Byggingu nýs sjúkrahótels við Hringbraut lýkur að öllum líkindum í lok janúar og hafist verður handa við lokaþrif á húsinu nú um helgina, að sögn Gunnars Svavarssonar, framkvæmdastjóra Nýs landspítala ofh. (NLSH).

„Við stefnum að því að skila húsinu til stjórnvalda í lok janúar. Í framhaldi af því mun heilbrigðisráðherra afhenda Landspítalanum húsið til rekstrar og gera má ráð fyrir því að spítalinn undirbúi reksturinn næstu vikur þar á eftir,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

„Byggingarframkvæmdin er algjörlega á lokametrunum og það eru að hefjast lokaþrif á húsinu nú um helgina.“

NLSH tók við verkinu ókláruðu af verktakanum Munck Ísland ehf. vegna ágreinings. Farið var fram á tafarlausa afhendingu á sínum tíma, þrátt fyrir að verkið stæði óklárað. Þá var málið einnig fært í gerðardóm. Aðspurður segir Gunnar að heildarkostnaður við verkið fáist ekki uppgefinn fyrr en við verkskil.

„Heildarkostnaðurinn, hann hefur í sjálfu sér verið í samræmi við samninginn við verktakann. En síðan eru deilur um uppgjör í samningnum sem hafa verið færðar inn í gerðardóminn. Þar af leiðandi hefur hvorugur aðili viljað tjá sig um þær kröfur sem aðilarnir hafa sett fram.“

Hefur verkið farið fram úr kostnaðaráætlun?

„Verksamningurinn sem slíkur, framvinduverkið, hefur verið í samræmi við áætlanir, uppfært miðað við vísitölur,“ segir Gunnar.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.