Innlent

Raggi Bjarna ætlar að kveðja stóra sviðið með stórtónleikum í Hörpu

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Eiður Þór Árnason skrifa
Raggi Bjarna ætlar að kveðja stóra sviðið með stórtónleikum í Hörpu í kvöld. Hann segist þó hvergi nærri hættur að syngja opinberlega en það verði bara á minni stöðum. Hann segir að leyndarmálið á bak við að halda söngröddinni í 70 ár sé að hafa engar áhyggjur.Stórsöngvarinn Raggi Bjarna byrjaði söngferil sinn fyrir sjötíu árum þegar hann var fimmtán ára gamall og hefur síðan þá átt hverja dægurlagaperluna á fætur annarri. Hann hefur nokkrum sinnum haldið kveðjutónleika og í kvöld verða tónleikar í Eldborg í Hörpu sem sagðir eru síðustu stórtónleikar listamannsins.„Ég er með umboðsmann sem heitir Einar Spade, og einn annan. Þeir eru óútreiknanlegir, ég gæti verið farinn að spila út í Grímsey eftir viku þess vegna. Svoleiðis að það þarf að spyrja hann um það hvað hann gerir,“ sagði Raggi í samtali við fréttastofu.Raggi var á æfingu í dag ásamt Þorgeiri Ástvaldssyni sem hefur spilað og sungið með honum um margra ára skeið. Þeir félagar eru búnir að fylla Eldborg. Raggi segir nauðsynlegt að vera með sviðsskrekk.„Það er alltaf sko. Ef hann væri ekki þá væri eitthvað að.“ Raggi sem er áttatíu og fimm ára segir að leyndardómurinn að því að geta sungið svo lengi sé einfaldur.„Það er það merkilega við þetta að ég hef aldrei spekúlerað í röddinni öðruvísi en að nota hana til þess að syngja með. Hún klikkar bara þegar hún ætlar að klikka og þá er það bara búið,“ sagði Raggi léttur í bragði.Eitt af uppáhaldslögum Ragga er My way eftir Frank Sinatra. Hann segir textann eiga afar vel við kvöldið og tók lagastúf fyrir fréttastofu. 

Tengd skjöl


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.