Innlent

Ekkert að fela mokast út frá útgefanda

Jakob Bjarnar skrifar
Frumraun þeirra Aðalsteins, Helga og Stefáns ætlar heldur betur að falla í kramið enda efnið eldfimt í meira lagi.
Frumraun þeirra Aðalsteins, Helga og Stefáns ætlar heldur betur að falla í kramið enda efnið eldfimt í meira lagi.
Svo virðist sem Íslendingar hafi mikinn og einlægan áhuga á Samherjamálinu. Það merkir Egill Örn Jóhannsson framkvæmdastjóri Forlagsins.

„Bókin var að klárast hjá mér eftir fjóra sólarhringa á markaði. Ég þarf að rjúka í endurprentun. Þjóðin virðist sólgin í þetta mál,“ segir Egill í samtali við Vísi og er þar að tala um bókina Ekkert að fela – á slóð Samherja í Afríku. 

Víst er að Samherjamálið hefur hrist upp í þjóðfélaginu svo um munar. Tvöfaldur Kveiks-þáttur þeirra Aðalsteins Kjartanssonar, Helga Seljan og Stefáns Drengssonar var sýndur fyrir tíu dögum sem fjallar meðal annars um mútumál Samherja í Namibíu. Þar hefur málið haft alvarlegar afleiðingar, þær að allir þeir Namibíumenn sem taldir eru hafa þegið mútur frá norðlenska útgerðarfélaginu hafa sagt sig frá embættum.

Þeir Aðalsteinn, Helgi og Stefán fylgdu þættinum eftir með því að senda frá sér bókina Ekkert að fela. Fyrsta prentun var í 2,500 eintökum og sagðist framkvæmdastjórinn hafa verið bjartsýnn með söluna. En, nú er upplagið allt farið frá útgefanda.

Víst er að málið er einstaklega viðkvæmt á Eyjafjarðarsvæðinu og hafa jafnvel heyrst þær raddir að bókin hreyfist lítt þar í búðum. Egill segist ekkert vita um bóksölu nyrðra.

Fátítt er að „blaðamannabækur“, sem er til að mynda stór bókmenntagrein úti í Bandaríkjunum, seljist svo vel á Íslandi. En, kaupendur slíkra bóka virðist hafi nú tekið vel við sér. Egill Örn segir því miður það svo hafa verið að tiltölulega fáar blaðamannabækur hafi verið gefnar út á Íslandi. En nú horfir til bjartari tíðar með það.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×