Erlent

Þingið hefur formlega rannsókn á því hvort Trump hafi framið embættisbrot

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Rannsóknin mun hefjast innan tíðar.
Rannsóknin mun hefjast innan tíðar. AP/Susan Walsh
Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings og leiðtogi demókrata í neðri deild þingsins, tilkynnti rétt í þessu að fulltrúadeildin muni setja af stað formlega rannsókn sem rannsaka eigi hvort Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hafi framið embættisbrot með því að hafa þrýst á úkraínsk stjórnvöld að rannsaka pólitískan andstæðing hans.

Þetta kom fram í máli Pelosi er hún ávarpaði bandarísku þjóðina í beinni útsendingu rétt í þessu.

„Fulltrúadeildin mun hefja rannsókn á því hvort forsetinn hafi framið embættisbrot,“ sagði Pelosi. „Enginn er hafinn yfir lögin.“

Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því fyrr í kvöld að Pelosi myndi tilkynna í kvöld að hefja ætti hið formlega ferli sem fer af stað þegar þingið ákveður að rannsaka hvort ákæra eigi forseta eða ekki.

Málið kom upp eftir að fregnir bárust af því í síðustu viku að uppljóstrari innan leyniþjónustu Bandaríkjanna hefði lagt fram kvörtun sem tengdist samskiptum háttsetts embættismanns við erlent ríki. Þar hefði verið gefið óviðeigandi loforð.

Óánægjan nú snýst um símtal Trumps og Volodímírs Selenskíj, forseta Úkraínu. Trump er sagður hafa sett 400 milljóna dala hernaðaraðstoð við Úkraínu á ís fyrir símtalið en síðan lofað Selenskíj aðstoðinni gegn því að Úkraínumenn rannsökuðu Joe Biden, einn líklegasta forsetaframbjóðanda Demókrata, og son hans Hunter Biden sem var í stjórn úkraínsks orkufyrirtækis.

Pelosi hefur hingað til staðist þrýsting frá samherjum sínum um hvort hefja ætti hið formlega ákæruferli en hún hefur sagt að Úkraínumálið sé vendipunktur í rannsóknum á Trump


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.