Innlent

Segir að umskurður drengja eigi ekki að vera ákvörðun annarra

Jóhann K. Jóhannsson og Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifa
Morten segir ekki viðeigandi að ákvörðun um umskurð sé tekin af öðrum en einstaklingnum sjálfum, þaðan af ungum börnum sem ekki geti tjáð sig.
Morten segir ekki viðeigandi að ákvörðun um umskurð sé tekin af öðrum en einstaklingnum sjálfum, þaðan af ungum börnum sem ekki geti tjáð sig. Vísir/Getty
Danskur prófessor segir að umskurður drengja eigi ekki að vera ákvörðun annarra en þeirra sjálfra, þegar þeir geti tekið ákvörðun um slíka aðgerð. Hann segir ákvörðun um umskurð meira siðferðilega heldur en læknisfræðilega.

Ty Erickson, bandarískur kvensjúkdómalæknir sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 um síðustu helgi að umskurður drengja væri ekki eins sársaukafullur eins og af er látið og að slík aðgerð væri góð af heilsufarsástæðum til frambúðar.

„Það er tíföld lækkun reðurkrabbameinstilfella og það er fjórföld fækkun þvagfærasýkinga og það dregur úr hættunni á útbreiðslu kynsjúkdóma,“ sagði hann meðal annars í viðtalinu.

Árið 2012 lagði barnalæknafélagið í Bandaríkjunum það til að umskurður drengja yrði greiddur af honum opinbera og yrði þar með hluti af heilbrigðiskerfinu. Því mótmæltu fjörutíu læknar í Vestur-Evrópu, með dr. Morten Frisch, danskan prófessor í faraldsfræðum kynsjúkdóma, í fararbroddi, í fræðigrein þar sem fullyrðingar læknasamfélagsins í Bandaríkjunum voru meðal annars hraktar og segir Morten ákvörðun um umskurð ungra drengja meira siðferðilega heldur en læknisfræðilega.

Byggðar á getgátum

„Læknisfræðileg rök fyrir því að umskera heilbrigt barn eru afar illa rökstudd í læknisfræðilegum ritum. Staðhæfingar þess efnis að umskurður barns dragi úr líkum á því að það fái hina ýmsu sjúkdóma í framtíðinni eru að mestu leyti byggðar á getgátum. Eina þekkta meinið sem vitað er að unnt sé að hindra að börn fái er þvagfærasýking í æsku. Allar aðrar fullyrðingar talsmanna umskurðar, svo sem minnkandi áhætta á HIV-smiti eða kynsjúkdómum og reðurkrabbamein síðar meir, eru allt sjúkdómar sem fólk fær á fullorðinsaldri,“ sagði Morten í Kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.

Morten segir ekki viðeigandi að ákvörðun um umskurð sé tekin af öðrum en einstaklingnum sjálfum, þaðan af ungum börnum sem ekki geti tjáð sig.

„Fólk getur tekið ákvörðunina sjálft þegar það vex úr grasi ef það hefur trú á þessum rökum. Ekki skiptir máli hvort færa megi einhver heilsufarsleg rök fyrir umskurði. Færa má rök fyrir því að njóta megi kosta umskurðar með aðgerðum sem kalla á mun minna inngrip.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×