NFL-dómarinn Jeff Triplette hefur ákveðið að reka sjálfan sig af velli og upp í hægindastólinn eftir hörmulega frammistöðu í leik um síðustu helgi.
Triplette fór fyrir dómarateyminu í leik Kansas City Chiefs og Tennessee Titans um síðustu helgi. Triplette og félagar áttu alls ekki góðan dag. Triplette skammast sín svo fyrir frammistöðuna að hann hefur hent flautunni upp í hillu.
Meðal annars klikkuðu þeir á því að dæma boltann af Tennessee er Kansas átti réttilega að fá hann. Titans kláraði sóknina með vallarmarki og vann leikinn með einu stigi, 22-21.
„Hræðileg byrjun á úrslitakeppninni. Það er ekki gaman að segja það en þetta var ekki góð frammistaða hjá dómarateyminu,“ sagði Mike Pereira, fyrrum yfirmaður dómaranefndar.
Triplette hefur verið að dæma í NFL-deildinni síðan 1996 og er einn þekktasti dómari deildarinnar. Hann hefur lent í ýmsu á ferlinum en líklega það eftirminnilegasta er hann kastaði gula flagginu sínu í andlitið á leikmanni með þeim afleiðingum að leikmaðurinn blindaðist tímabundið.
Dómari rekur sjálfan sig af vellinum

Tengdar fréttir

NFL úrslitakeppnin farin af stað: Leikstjórnandi Títana greip sína eigin sendingu í endurkomusigri
Úrslitakeppni NFL - deildarinnar fór af stað með látum í gær. Óvænt úrslit og skrautleg snertimörk litu dagsins ljós.