Menning

Ekkisens sýnir í Los Angeles

Freyja Eilíf skellti sér í Englaborgina með þremur listakonum sem hafa verið að sýna í Ekkisens.
Freyja Eilíf skellti sér í Englaborgina með þremur listakonum sem hafa verið að sýna í Ekkisens. Fréttablaðið/Valli
Sýningin Synthetic Shore­lines hefur verið í gangi í Los Angeles núna í mánuð en þar sýna íslenskar listakonur í samfloti með fjórum amerískum kollegum sínum. Um er að ræða samstarf á milli gallerísins Ekkisens og listakollektífsins og gallerísins Durden&Ray, sem er í Los Ang­eles. Þær Katrína Mogensen, Freyja Eilíf Logadóttir, Kristín Morthens og Sara Björg hafa fengið frábæra umfjöllun á meðan á dvölinni stóð og sýningin var valin ein sú áhugaverðasta í opnunarvikunni.„Synthetic Shorelines er samsýning sem er unnin í samstarfi Ekkisens við Durden and Ray, kollektíf listamanna og sýningarstjóra í Los Angeles. Bæði Ekkisens og Durden&Ray voru á listmessu í Svíþjóð þar sem hugmyndir um samstarf kviknuðu. Sýningarstjórn annaðist ég en ég er eigandi Ekkisens og íslenskir sýnendur eru myndlistarmenn sem hafa tekið þátt í sýningum Ekkisens síðastliðin fjögur ár,“ segir Freyja Elíf sem hefur rekið listarýmið Ekkisens í fjögur ár, en það fagnaði afmælinu í október síðastliðnum.„Titil sýningarinnar mætti þýða yfir á íslensku sem gervistrandlínur en í sýningarskrá eru þær útskýrðar sem lifandi landamæri frumefna, áferðar og formgerða sem mætast í nýstárlegum hugmyndum. Á sýningunni erum við að rannsaka strandlínur sálarinnar og sjálfsins á nýmiðlaöld. Báðir hóparnir eru nefnilega frá borgum sem liggja að úthafi.“Listakonurnar í Joshua Tree-þjóðgarðinum.
Sýningin hefur vakið jákvæða athygli í Los Angeles og var eins og áður sagði útnefnd sem ein af 10 áhugaverðustu sýningaropnunum borgarinnar vikuna sem hún var opnuð.„Það var rosalega góð mæting á opnunina, í sömu byggingu voru þrjú önnur gallerí með uppákomur sama kvöld. Fólk gat flakkað á milli og það myndaðist mikil stemming í Bendex-byggingunni. Síðan þá hefur sýningin verið ýtarlega rýnd af Genie Davis rithöfundi á vefmiðlinum Riot Material sem lofar hvert verkið af öðru.“Þrátt fyrir að listafólkið hafi verið með sama þemað í verkum sínum voru verkin að sögn Freyju gífurlega ólík innbyrðis.„Við erum með skemmtilega ólík verk á sýningunni sem tengjast þó hvert öðru gegnum gervistrandlínur. Við innkomu í sýningarrýmið blasir við innsetning Katrínu Mogensen „Potential for life“, innsetning þar sem m.a. er að finna drullupoll frá Los Angeles sem hún reynir að temja og festa í form.

Myndir eftir Freyju.
Ég sýni tvö verk á sýningunni, annars vegar innsetningu þar sem gestum býðst leidd hugleiðsla og tenging við tölvuanda sem vísar veginn inn í stafrænar víddir og kertavaxmyndir af eiturölvuðum andlitsslettum.Sara Björg sýnir hóp skúlptúra sem gerðir eru úr endurnýttum svampi. Skúlptúrarnir eru fimm, eru dreifðir um rýmið og heita allir „Ionian“ sem vísar í jónískar súlur. Listamaðurinn leikur sér með andstæður í sveigjanleika efnisins og stöðugleika forngrískra strúktúra.Kristín Morthens sýnir þrjú málverk sem túlka innvortis rými, bæði líkamleg og tilfinningaleg.“Það verður spennandi að sjá hvar í heiminum Ekkisens dúkkar upp næst.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.