Sport

Guðni Valur stefnir á Íslandsmet og Ólympíugull

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guðni Valur Guðnason, 22 ára gamall kringlukastari úr ÍR, verður á meðal keppenda á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum sem fram fer í Berlín í næsta mánuði.

Guðni Valur er búinn að setja sér markmið fyrir mótið en hann ætlar sér að minnsta kosti að vera á meðal þeirra bestu. „Ég ætla að komast í úrslit. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Svo vil ég ná mínum besta árangri,“ segir Guðni.

Þessi stóri strákur byrjaði ekki að kasta kringlu fyrr en fyrir fjórum árum síðan en nálgast nú 29 ár gamalt Íslandsmet Vésteins Hafsteinssonar frá árinu 1989.

Vésteinn kastaði þá 67,54 metra en Guðni á næstlengsta kast Íslandssögunnar sem eru 65,53 metrar. „Það eru tveir metrar í það núna og aldrei verið jafn stutt í rauninni. Maður verður bara að vera vongóður og ná þessu í haust,“ segir Guðni, en hvert stefnir hann í framtíðinni?

„Á Ólympíugull,“ svarar hann um hæl.

Alla fréttina úr kvöldfréttum Stöðvar 2 má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×